Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Þingmenn úr flestum flokkum ætla að kveðja þingið

Að minnsta kosti þrettán Alþingismenn, tvær konur og ellefu karlar, ætla ekki að gefa kost á sér til áframhaldandi þingstarfa í komandi kosningum. Hlutfallið er hæst hjá Pírötum þar sem nær helmingur sitjandi þingmanna flokksins ætlar að hætta eftir kjörtímabilið.

Það verður töluverð endurnýjun í þingsalnum eftir kosningarnar í september. Að minnsta kosti sex þingmenn ríkisstjórnarflokkanna hverfa sjálfviljugir á braut: þrír úr VG, tveir Sjálfstæðismenn og einn úr Framsókn.

Úr Vinstri grænum eru það Ari Trausti Guðmundsson, Kolbeinn Óttarsson Proppé og Steingrímur J. Sigfússon sem hætta eftir kjörtímabilið. 

Sami fjöldi Samfylkingarfólks ætlar ekki að halda áfram, þau Albertína Friðbjörg Elíasdóttir, Ágúst Ólafur Ágústs­son og Guðjón S. Brjáns­son

Sömuleiðis hverfa þrír Píratar á braut, þeir Helgi Hrafn Gunnars­son, Jón Þór Ólafsson og Smári McCarthy. 

Tveir Sjálfstæðismenn hætta, Kristján Þór Júlíusson og Páll Magnússon. 

Gunnar Bragi Sveinsson, Miðflokki, tilkynnti í morgun að hann gefi ekki kost á sér áfram. 

Og Þórunn Egilsdóttir, Framsókn, lætur sömuleiðis af þingstörfum. 

Þórunn og Albertína eru einu konurnar sem ætla ekki að gefa kost á sér áfram eins og er. 

Sé litið til hlutfalls þeirra sem hætta af þingsætum flokka verður mest endurnýjun hjá Pírötum, þrír af sjö. Hlutfallið er tæp 40 prósent hjá Samfylkingu, þriðjungur þingmanna VG hættir, 13 prósent þingmanna Sjálfstæðisflokks og Framsóknar og rúm tíu prósent hjá Miðflokki. 

Þó ber að hafa í huga að enn getur dregið til tíðinda. Þá hafa ekki allir hlotið það brautargengi sem vonast var eftir þar sem listar eru komnir fram. Benedikt Jóhannesson, fyrrverandi formaður Viðreisnar og helsti stofnandi flokksins, sóttist til að mynda eftir oddvitasæti, en uppstillingarnefnd bauð honum neðsta sæti á lista, sem Benedikt þáði ekki.