Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Skoða þarf sviðsmyndir vegna hrauns í Nátthaga

Hraun rennur nú niður í Nátthaga yfir báða varnargarðana sem reistir voru í nafnlausa dal til að varna hraunflæði á Suðurstrandarveg og hraunbreiðan stækkar ört. Þaðan eru um tveir og hálfur kílómetri að Suðurstrandarvegi. Formaður bæjarráðs Grindavíkur segir að huga þurfi að aðgerðum, menn hafi ekki endalausan tíma.

Garðarnir voru reistir til að stemma stigu við hraunflæði frá eldstöðvunum í Geldingadal í Nátthaga.  Hraun tók að flæða yfir þann austari aðfaranótt laugardags, það rann um hálfan kílómetra niður gil og steyptist síðan niður 
um 100 metra langa hlíð í gilið norðan Nátthaga og breiðist nú yfir hagann. Í morgun varð síðan vart við að hraun hefði farið yfir vestari varnargarðinn.

Hjálmar Hallgrímsson, formaður bæjarráðs í Grindavík, segir að fyllsta ástæða sé til að huga að aðgerðum.  „Við vissum allan tímann að þetta gæti orðið staðan og nú er það staðreynd.  Við vitum svo sem ekki hvað mikið af hrauni mun fara þarna niður. Það eru tveir og hálfur kílómetri þarna inn að og núna þurfum við að fara yfir stöðuna,“ segir Hjálmar.

Magnús Tumi Guðmundsson prófessor í jarðeðlisfræði sagði í samtali við fréttastofu í dag að mánuðir gætu liðið þar til hraunið myndi leita suður úr Nátthaga, miðað við núverandi flæði þess. Hjálmar segir að ýmsir möguleikar séu í stöðunni til að bregðast við því.

„Við eigum svo sem möguleika á að gera svipaðar æfingar eins og voru gerðar þarna uppi með varnargörðum. Það verður þá að fara heildstætt yfir hvort það er fýsilegur kostur til að verja Suðurstrandarveginn, en við erum aðeins með tímann núna. Hann er ansi stór, Nátthaginn, en menn hafa ekki endalausan tíma. Það verður að fara yfir stöðuna eftir helgi og hver næsta sviðsmynd er. Þetta er eitthvað sem við þurfum að taka dag fyrir dag og endurmeta stöðuna í sífellu,“ segir Hjálmar.