Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Óveður varð yfir tuttugu hlaupurum að bana í Kína

23.05.2021 - 02:04
Erlent · Asía · Kína · Veður
In this photo released by China's Xinhua News Agency, emergency personnel and vehicles wait on standby at the Yellow River Stone Forest tourist site in Baiyin in northwestern China's Gansu Province, Sunday, May 23, 2021. Rescuers in China say a number of people have died and others are missing in extreme weather during a mountain marathon cross-country race in the country's northwest. (Fan Peishen/Xinhua via AP)
 Mynd: AP
Tuttugu og einn hlaupari er látinn eftir að mikið óveður skall á þátttakendur í hundrað kílómetra fjallahlaupi í Kína. Veðrið skall á þegar keppendur voru hvað hæst í brautinni. Meðal hinna látnu eru nokkrir fremstu utanvegahlaupara Kína að sögn þarlendra fjölmiðla. 

Á örskammri stundu dundi haglél á keppendum og ísköld rigning ásamt hvössum vindhviðum. Hitastig féll jafnframt mjög skart að sögn Zhang Xuchen, borgarstjóra Baiyin. Mótið var haldið í skóglendi nærri borginni, sem er í Gansu héraði, nærri landamærunum að Mongólíu. 

Laust upp úr hádegi í gær að staðartíma, þegar keppendur voru komnir um 20 til 30 kílómetra, hófst óveðrið. Björgunarlið var sent á vettvang af mótshöldurum eftir að nokkrir keppendur griendu frá erfiðleikum. Um klukkan tvö eftir hádegi versnaði veðrið enn og hlaupinu var umsvifalaust aflýst, um leið og kallað var eftir fleiri björgunarmönnum. 

Að sögn Xinhua fréttastofunnar ofkældust nokkrir hlauparar. Borgarstjórinn Zhang segir átta hafa veirð flutta á sjúkrahús með minniháttar meiðsli og ástand þeirra væri stöðugt.

Leitarskilyrði voru orðin verulega erfið í nótt þegar sex týndra hlaupara var leitað. Þeir voru allir látnir þegar þeir fundust.

Fréttin var uppfærð klukkan 05:33.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV