Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Gætu verið mánuðir þar til hraunflæði ógnar mannvirkjum

Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson / RUV
Þrátt fyrir að hraun renni yfir báða varnargarðana sem settir voru upp til þess að varna því að það færi niður í Nátthaga, þá eru enn mánuðir í að það fari mikið lengra miðað við núverandi flæði. Þetta segir Magnús Tumi Guðmundsson, prófessor í jarðeðlisfræði.

„Það virðist vera að það þurfi að vera ákveðinn halli á hrauninu svo það gangi fram, og það þarf að byggja sig upp í þann halla. Það þýðir að ef gosið heldur áfram eins og það hefur verið að gera núna, næstu mánuði, þá mun það fylla Geldingadali og renna niður í Nátthaga og áfram í Meradali,“ segir Magnús Tumi.

Það tekur því tíma að ná þeim halla í Nátthaganum.

„Þetta er nú töluvert stórt svæði og það mun hægja mikið á hrauninu þegar það kemur niður á jafnsléttu. Svo þarf það að byggjast upp og miðað við hvernig það hefur hegðað sér í Meradölum og Geldingadölum, og þessum svokallaða nafnlausa dal, þá eru sennilega þrír mánuðir eða svo áður en það fer að leita suður úr Nátthaganum.“

Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot - RÚV
Magnús Tumi Guðmundsson, prófessor í jarðeðlisfræði.

Gæti þurft að hugsa leiðir að gosinu upp á nýtt

Magnús Tumi segir að því þurfi ekki að óttast um Suðurstrandarveg og önnur mannvirki strax, það gæti þurft að bregðast fyrr við á öðrum stöðum.

„Það gætu þess vegna ekki verið margar vikur þangað til Geldingadalir fyllast og hraun fer að leita út úr þeim og þá hugsanlega niður gönguleiðina. Þá þarf að hugsa hlutina svolítið öðruvísi varðandi ferðir að gosinu. En ég held að það verði ekki stórt vandamál. En þetta er bara náttúran í mótun og það er ekkert víst að það sem við búum til endist lengi. Þetta er bara náttúran í mótun.“

Magnús Tumi var sjálfur við gosstöðvarnar þegar fréttastofa ræddi við hann, og það var ekki að sjá að krafturinn í gosinu færi minnkandi.

„Það er ekki að sjá að það sé neitt lát á þessu. Það virðist vera að jaðarinn sé virkur víðast hvar og hraunið er að þykkna og hækka alls staðar. Þetta þykknar um hálfan til einn metra á dag og þá er ekkert hægt að standa fyrir því, nema fjöllin sjálf .“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Anna Lilja Þórisdóttir
Hraun er tekið að renna niður í Nátthaga, en þarf að byggjast upp til að ná lengra.

Alltaf að fá betri tilfinningu um hegðun gossins

Hraunfræðilíkön spá áfram fyrir um hvernig eldgosið hegðar sér og sviðsmyndir eru unnar út frá því.

„Við erum að fá alltaf betri og betri tilfinningu fyrir því hvernig þetta gos hegðar sér og hvernig þetta hraun hegðar sér. Svo það verður viðráðanlegra að búa til sviðsmyndir um það hvert þetta stefnir. En svo getur þetta náttúrulega bara hætt og þá þurfum við ekki að spá meira í þetta í bili,“ segir Magnús Tumi Guðmundsson, prófessor í jarðeðlisfræði.