Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Yfirlæknir furðar sig á rafskútunotkun barna

22.05.2021 - 17:45
Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Maður slasaðist á höfði þegar hann datt af rafskútu í miðborg Reykjavíkur í gærkvöld. Slysum hefur fjölgað hratt undanfarin misseri en hátt í tveir á dag leituðu til bráðamóttöku í fyrrasumar vegna rafskútuslysa.

Niðurstöður rannsóknar á tíðni rafskútuslysa eru birtar í nýjasta hefti Læknablaðsins, þar sem farið er yfir að auknar vinsældir rafskúta hafi leitt til fleiri slysa. Það eitt og sér er hins vegar ekki sérstakt áhyggjuefni, að mati Hjalta Más Björnssonar, yfirlæknis bráðamóttöku Landspítalans og eins höfunda rannsóknarinnar.

„Við vitum að það eru fleiri þúsundir ferða sem eru farnar á hverjum degi á höfuðborgarsvæðinu, þannig þó það séu eitt til tvö slys á dag þá er það svolítið eins og við má búast,“ segir Hjalti Már.

Algengustu áverkarnir eru beinbrot, en flestir áverkarnir voru minniháttar. Meðal þess sem höfundar álykta út frá rannsókninni er að til þess að draga úr slysatíðni þurfi að bæta aðstöðu.

„Það virtist vera að um þriðjungur slysanna er að verða vegna þess að fólk fer á kant eða eitthvað í undirlaginu eða gatnakerfinu gerir það að verkum að slysið verður. Þess vegna held ég að það þurfi að halda áfram því öfluga starfi sem hefur verið unnið við að bæta aðstöðu fyrir örflæði, það er að segja fólk sem fer um hjólandi eða á rafhlaupahjólum eða öðru slíku.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Rafskútur og rafhlaupahjól njóta vaxandi vinsælda.

Aðspurður um höfuðmeiðsl segir Hjalti að flest séu flest skurðir í andliti og tannbrot, nokkuð sem hjálmar vernda ekki endilega fyrir.

„Ég mæli með því að nota hjálm á rafhlaupahjóli en það á ekki að vera skilyrði þess að fólk noti þennan samgöngumáta. Því það er mun mikilvægara að bæta umferðarmenninguna og bæta aðstöðu til þess að nota ferðamátann til þess að draga úr slysum.“

Hjalti segir að fjöldi slysa meðal barna í kringum tíu og ellefu ára aldurinn hafi vakið athygli.

„Ég eiginlega skil ekki í af hverju foreldrar eru að fjárfesta í rafknúnum farartækjum fyrir börnin og held að það væri mun heppilegra að þau ferðist um fyrir eigin vélarafli. Þau fara þá ekki jafn hratt og þau fá þjálfun úr því að komast á milli staða, frekar en að standa kyrr á rafknúnu hlaupahjóli,“ segir Hjalti Mér Björnsson, yfirlæknir bráðamóttöku Landspítalans.