Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Tveir af þremur nálgast fréttir á samfélagsmiðlum

22.05.2021 - 14:34
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Tveir af hverjum þremur nota samfélagsmiðla til að nálgast fréttir. Þetta kemur fram í niðurstöðum nýrrar könnunar á fjölmiðlalæsi sem Fjölmiðlanefnd lét gera í febrúar og mars og mun kynna í áföngum. Samkvæmt henni á þriðjungur unglinga erfitt með að fylgjast með efni frétta.

Í niðurstöðum könnunarinnar kemur fram að þegar fréttamiðlar voru skoðaðir með tilliti til þess hvenær þátttakendur notuðu þá síðast til þess að nálgast fréttir kom í ljós að flestir, 86,4%, höfðu síðast notað fréttamiðla á netinu deginum fyrir könnun. Næstflestir höfðu notað samfélagsmiðil, 65,6%, þá sjónvarpsstöð, 62,4%, útvarpsstöð, 59,9%, dagblað, 26,9%, hlaðvarp, 12,9%, og tímarit eða vikublað 5,6%.

20% í hópi 18 til 29 ára eiga erfitt með að fylgja efni frétta

„Í þessari fyrstu skýrslu erum við að sjá mjög athyglisverðar niðurstöður um hvernig miðlanotkun okkar er að breytast, hvernig aldursbilið er. Við erum að sjá mjög mikinn mun á því hvaða miðla við notum og hvernig við erum að nota þá. Það er mjög mikilvægt til þess að skilja svo það sem við förum í í næstu skýrslum þegar við förum að reyna að henda okkur í þá laug sem falsfréttir og hatursorðræða er,“ segir Skúli Bragi Geirdal sem stýrir verkefninu hjá fjölmiðlanefnd.

Í niðurstöðum kemur einnig fram að einn af hverjum átta, 12,5%, á erfitt með að fylgjast með efni frétta, þar af hátt í 30% í hópi 15 til 17 ára, en 93% í þeim aldurshópi nota samfélagsmiðla til að nálgast fréttir. Hátt í 20% í hópi 18 til 29 ára sögðust eiga í erfiðleikum með að fylgjast með efni frétta.

Sjónvarp þykir mikilvægasti fréttamiðillinn hjá 66% svarenda, 63% segja ókeypis fréttamiðla á netinu mikilvægasta fréttamiðilinn og tæp 60% telja útvarp þann mikilvægasta. Tæp 20% telja samfélagsmiðla mikilvæga fréttaveitu og tvö prósent svarenda fylgjast ekki með fréttum. Þá sagðist nærri helmingur svarenda frekar eða mjög sammála því að þau væru vel upplýst þrátt fyrir að fylgjast ekki með fréttum.

66% traust til fjölmiðla og fleiri falsfréttir

„Við erum að bera þetta saman við norska rannsókn sem er mjög sambærileg þessari. Þar erum við að sjá að það er töluverður munur á Íslandi og Noregi þegar kemur að miðlalæsi, og miðlalæsi er mikilvægt til að efla gagnrýna hugsun þannig að við getum skilið, og dregið skynsamlegar ályktanir af upplýsingunum sem við erum að fá á hverjum degi,“ segir Skúli Bragi.

Hann segir þennan skilning virðast öðruvísi í Noregi en á Íslandi. „Við virðumst vera að sjá miklu fleiri falsfréttir en það gæti líka verið til dæmis af því að við erum með betra miðlalæsi, við tökum frekar eftir þeim.“

Tveir af hverjum þremur, 66,1%, sögðust frekar eða alveg sammála fullyrðingunni „almennt séð ber ég traust til íslenskra fjölmiðla“.

Könnunin um fjölmiðla- og netnotkun og færni almennings var framkvæmd af Maskínu fyrir fjölmiðlanefnd. Könnunin var lögð fyrir Þjóðgátt Maskínu, sem er þjóðhópur sem dreginn er með tilviljun úr Þjóðskrá, á netinu. Svarendur eru alls staðar að af landinu og á aldrinum 18 ára og eldri. Könnunin var einnig lögð fyrir úrtak ungmenna á aldrinum 15-17 ára sem dregið var með tilviljun úr Þjóðskrá. 1.442 svöruðu könnuninni.

Valgerður Árnadóttir
Fréttastofa RÚV