Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Segja sveitarfélögin draga lappir í vinnuvikustyttingu

Mynd með færslu
 Mynd: RUV
Starfsgreinasamband Íslands segir sveitarfélögin hafa dregið lappirnar í styttingu vinnuvikunnar og fái algera falleinkunn. Formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga segir ályktun Starfsgreinasambandsins sorglega.

Starfsgreinasambandið sendi frá sér ályktun í gær þar sem þau lýsa yfir miklum áhyggjum með framkvæmd á útfærslu styttingar vinnuvikunnar hjá sveitarfélögunum um land allt. Sambands íslenskra sveitarfélaga og sveitafélögin vítt og breytt um landið hafi ekki sinnt verkefninu og fá algera falleinkun. Samantekin tölfræði sýni að starfsfólk á skrifstofum hafi samið um fulla styttingu án teljandi vandkvæða en starfsfólk í leik- og grunnskólum og slíkum störfum fái litla eða enga styttingu. Ríki og Reykjavíkurborg hafa staðið sig betur. Aldís Hafsteinsdóttir  formaður Sambands Íslanskra sveitarfélaga segir ákvæði kjarasamninga vera skýr.

„Mestmegnis þykir mér þetta afar sorgleg yfirlýsing af því að hún stangast á við þann raunveruleika sem við vitum að er staðreynd úti í samfélaginu á þeim vinnustöðum sem við erum að stýra.“

Og hvernig hefur verið staðið að styttingu vinnuvikunnar?

Það er mikilvægt að halda því til haga að það var samið um 13 mínútna styttingu á dag. Það vita stéttarfélögin mæta vel. Það var aftur á móti í kjarasamningnum heimildarákvæði til frekari styttingar ef umbótarsamtöl á viðkomandi vinnustað myndu leiða það í ljós og að starfsmenn myndu vilja selja frá sér matar og kaffitímana,“ segir hún.

Hún segir að til að mynda í grunnskólum séu almennir starfsmenn að fá svipaða vinnustyttingu og kennarar þegar árið var tekið saman í heild sinni. Aldís býst við því að þetta verði til umræðu í kjaraviðræðum sem eru framundan.

„Mér heyrist að viðsemejendur okkar muni ræða þetta í kjaraviðræðum en það er mikilvægt að það geri sér allir grein fyrir því hvað stendur í þeim kjarasamningum sem þegar er búið að undirrita. Og ég held að viðsemjendur okkar geri sér alveg grein fyrir því, þeir vita betur.“ segir Aldís.