Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Neikvæð próf hjá Daða og Gagnamagninu fyrir kvöldið

Myndir úr grænaherberginu
 Mynd: Gísli Berg - RÚV

Neikvæð próf hjá Daða og Gagnamagninu fyrir kvöldið

22.05.2021 - 14:02

Höfundar

Daði Freyr Pétursson og aðrir liðsmenn Gagnamagnsins fóru í kórónuveirupróf í morgun í kjölfar smits sem kom upp í hópnum í vikunni. Daði greinir frá því á Twitter að hann hafi greinst neikvæður.

Jóhann Sigurður Jóhannsson er í einangrun vegna smits en Rúnar Freyr Gíslason, fjölmiðlafulltrúi íslenska hópsins, staðfestir við fréttastofu að hinir liðsmenn Gagnamagnsins sem fóru í próf hafi greinst neikvæðir í morgun. 

Eins og fram hefur komið breytir það þó engu fyrir úrslitakvöldið í kvöld. Daði og Gagnamagnið horfa á úrslitin á hótelinu á meðan upptaka af atriðinu er spiluð, eins og í undanúrslitunum á fimmtudagskvöld. Þá voru Jóhann og Stefán Hannesson, sem hafði mest umgengist Jóhann fyrir smitið, með í gegnum spjaldtölvur. Það verður eins í kvöld.

Daði og Gagnamagnið eru sem stendur í sjötta sæti í veðbönkum fyrir úrslitakvöldið en Ítalía er efst.