Ísland í 4. besta sætinu í rásröðinni

Seinni æfing Daða Freys og Gagnamagnsins í Ahoy höllinni í Rotterdam. Eurovision 2021
 Mynd: EBU

Ísland í 4. besta sætinu í rásröðinni

22.05.2021 - 09:00

Höfundar

Djöfladýrkandinn eða öllu heldur konan sem gaf Myrkrahöfðingjanum hjarta sitt Elena Tsagrinou fyrir hönd Kýpur stígur fyrst á svið í úrslitum Eurovision á morgun. Ísland er 12. landið á svið en mat sérfræðinga er að það sé góður staður í rásröðinni.

Hitastigið heldur áfram að rjúka upp í Eurovision heimum, þó veðrið í Rotterdam í dag sé nú frekar í ætt við Ísland á sínum besta sumardegi. Vindasamt og 13°. Veðrið skiptir samt auðvitað ekki nokkru máli. Stóra málið eru úrslitin annað kvöld þar sem 26 lönd keppast um að fá að lyfta glerbikarnum, hinum íkonísku verðlaunum keppninnar.

Eins og fyrr segir opnar Kýpur veisluna en Peter Fenner, sérlegur greinandi Eurovision, minnir á að þetta sé í þriðja skipti sem eyjan opnar keppnina. Til upplýsinga er Kýpur ein af þremur eyjaþjóðum sem aldrei hafa sigrað keppnina. Hinar tvær eru Ísland og Malta. „Búlagaría, sem er 17. lagið á svið og Litháen strax á eftir númer 18 eru í þeim sætum sem sigurvegarar keppninnar hafa oftast verið í,“ segir hann spekingslega og beinir sjónum að þeim sætum í röðinni, sem fæstir sigurvegarar hafa setið í. „Portúgal, númer 7 í röðinni og Svíþjóð, númer 25, eru hins vegar í stöðum sem sigurvegarar hafa ekki verið í síðan 1975.“

Gott númer í rásröðinni

Íslenska þjóðin hefur vafalítið mestan áhuga á laginu 10 years og hvað það þýði að koma fram númer 12 í röðinni. Laufey Helga Guðmundsdóttir, ritari FÁSES, segir góðar fréttir að íslenska framlagið sé í þessari rásröð. „Við erum sett á milli Sviss og Spánar, sem eru ballöður og allt öðruvísi lög en 10 years sem þýðir að við munum skera okkur úr. Auðvitað setja framleiðendur þáttarins okkur þarna á milli, því okkar lag er á upptöku en Sviss og Spánn eru bæði með umfangsmikla leikmuni sem þarf að setja upp á svið og taka niður,“ segir Laufey Helga sem ítrekar að staðsetningin sé góð. „Við skulum ekki gleyma því að Duncan Lawrence var númer 12 á sviðinu í Tel Aviv, þegar hann sigraði keppnina.“

Peter Fenner segir þetta einn af bestu stöðunum í rásröðinni þegar horft er til sögu keppninnar. „Fyrir það fyrsta er Ísland fyrsta þjóðin til að taka þátt og komst í úrslit án þess að flytja lagið af sviðinu í beinni útsendingu. Þetta er 4. besti staðurinn í röðinni þegar við lítum til stigagjafa. Aðrir sigurvegarar í þessari röð eru Dana árið 1970 með All Kinds of Everything fyrir hönd Íra og Gigliola Cinquetti árið 1964 með No ho l'eta fyrir Ítalíu,“ segir Peter.

Í úrslitunum á morgun bætast svo við sex þjóðir, sem sluppu við undankeppni. Það eru hin svokölluðu Big 5 eða stóru fimm, Frakkland, Ítalía, Bretland, Spánn og Þýskaland. Að auki fara gestgjafar ár hvert beint í úrslit, í þetta skipti Hollendingar.

Röð laganna er sem hér segir:

1. Kýpur
2. Albanía
3. Ísrael
4. Belgía
5. Rússland
6. Malta
7. Portúgal
8. Serbía
9. Bretland
10. Grikkland
11. Sviss
12. Ísland
13. Spánn
14. Moldóva
15. Þýskaland
16. Finnland
17. Búlgaría
18. Litháen
19. Úkraína
20. Frakkland
21. Aserbaíjan
22. Noregur
23. Holland
24. Ítalía
25. Svíþjóð
26. San Marínó

 

Úrslit Eurovision fara fram á morgun, laugardag. Útsendingin hefst kl. 19 á RÚV.

 

Tengdar fréttir

Tónlist

Daði og Gagnamagnið tólfta atriðið á morgun

Tónlist

 „Ég vona að ég komist í salinn á laugardaginn“

Tónlist

Bjuggu til nýja Stefán og Jóa svo allir gætu verið með

Tónlist

Daði sker sig úr í Eurovision í kvöld