
Hundar greina COVID rétt í 97 prósent tilvika
Rannsóknin var gerð í mars og apríl og tóku níu hundar þátt í henni. Þeir þefuðu af klútum frá yfir þrjú hundruð manns til að greina smit. Rannsóknin var gerð af franska dýralæknaskólanum og rannsóknarteymi Necker-Cochin spítalans í París.
Samkvæmt niðurstöðunum greindu hundarnir smit af veirunni rétt í 97 prósentum tilvika. Talið er að niðurstöðurnar verði til að þess að kraftar hunda verði í meira mæli nýttir við skimun þar sem margt fólk kemur saman, til dæmis á flugvöllum og tónleikum. Nú þegar eru hundar í vinnu við skimun á alþjóðaflugvöllum í Finnlandi og Dúbaí.
Víða um heim tíðkast að fólk taki hraðpróf heima til að kanna hvort það sé smitað af COVID og samkvæmt nýlegri samantekt er niðurstaða slíkra prófa rétt að meðaltali í 72 prósentum tilvika. Þess má geta að hér á landi er notast við PCR-próf við skimanir sem er önnur gerð en áðurnefnd hraðpróf.
AFP fréttveitan hefur eftir Jean-Marc Tréluyer, prófessor við franska dýralæknaskólann, að niðurstöðurnar séu mikið gleðiefni og að næmni hundanna sé svipuð og PCR prófanna.