Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Hraunið komið yfir austari varnargarðinn

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Hraun er tekið að renna yfir austari varnargarðinn sem komið var upp í Nafnlausadalnum og nú rennur hraunið niður í Nátthaga.

Þetta sést á vefmyndavél RÚV á meðfylgjandi mynd. Líklega hefur stíflan brostið einhverntíma í nótt og þegar birta tók af degi sást hvar hraunið hefur runnið yfir stífluna.

Varnargarðarnir voru reistir með það fyrir augum að verja Suðurstrandarveg og ljósleiðara sem liggur með honum. Hver örlög þeirra verða kemur í ljós og einnig hvort að gripið verður til frekari varnaraðgerða gegn hraunrennslinu. 

Ríkisstjórnin ákvað á þriðjudag að verja 20 milljónum króna í að hækka varnargarðinn úr fjórum metrum í átta og hefur mikið kapp verið lagt á að hækka varnargarðinn sem því nemur. Ekki stendur til að hækka hann frekar, því síður nú þegar hraunið hefur náð yfir annan garðinn. 

Fréttin hefur verið uppfærð