Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Hraunfoss steypist niður í Nátthaga

Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson / RUV
Hraunfoss flæðir nú yfir varnargarðinn sem komið var upp í nafnlausa dalnum og steypist niður í Nátthaga. Garðurinn átti að vernda Suðurstrandarveg og ljósleiðara sem liggur meðfram honum, verið er að meta stöðuna og hvort ástæða sé til að grípa til frekari ráðstafana.

Garðurinn er sá austari af tveimur sem verkfræðistofan Verkís hannaði og stendur hinn enn. Þeir voru upphaflega fjórir metrar á hæð, en á ríkisstjórnarfundi á þriðjudaginn var ákveðið að hækka þá upp í átta metra. Vestari garðurinn er kominn upp í þá hæð, en sá sem nú er undir hrauni var kominn upp í um sex metra. 

„Og svo hefur þetta bara aukist smátt og smátt í dag,“ segir Hörn Hrafnsdóttir verkfræðingur hjá Verkís. „Þunnfljótandi hraun rennur þar yfir og smám saman, þegar fer að renna þarna yfir, rífur það gat í stífluna þannig að það er komin smá dæld þar sem rennur yfir. Svo hefur þetta haldið áfram aftan við stífluna og er núna farið að fossa fallega niður í Nátthaga.“

Er þetta eitthvað sem hefði mátt búast við?  Er vonlaust verkefni að reyna að hemja þetta? „Þetta er eitthvað sem við hefðum getað búist við.  Þarna erum við að sjá eitt ferli af mörgum sem geta gerst við svona stíflur.“

Hvað gæti gerst núna þegar hraun er farið að renna niður í Nátthaga? „Það fer svolítið eftir okkar ágæta eldfjalli - hvort það ætli að halda þessum stöðugleika, því rennslið núna yfir stífluna er ótrúlega stöðugt.“

Talsvert var af fólki á gosstöðvunum í dag, enda fyrirtaks útivistarveður. Björgunarsveitarmenn víðsvegar að af landinu voru með gæslu á svæðinu en nokkuð var um að fólk færi of nálægt gosstöðvunum. Mikið uppstreymi er frá hrauninu og talsverð hætta á gasmengun. Meðal þeirra sem voru við gæslu voru þeir Pétur Árnason og Benedikt Rafnsson frá björgunarsveitinni Húnar á Hvammstanga.  „Í dag erum við aðallega að passa upp á að fólk fari ekki yfir garðinn sem er að flæða yfir. Það er meginmarkmiðið okkar,“ sögðu þeir spurðir um verkefni dagsins.

Samkvæmt upplýsingum frá Almannavörnum er nú verið að meta hversu langan tíma það gæti tekið hraun að renna frá Nátthaga og að Suðurstrandarvegi, en þangað eru um tveir og hálfur kílómetri. Í dag var dróna flogið yfir svæðið til að kortleggja það og sérfræðingar Veðurstofu og Háskóla Íslands leggja mat á stöðuna.

„Þetta er stór og mikill dalur þannig að við erum ekki stressuð akkúrat núna að vita ekki svarið,“ segir Hörn. „En við ætlum að skoða þetta mjög vel á þriðjudagsmorguninn. Svo verðum við bara að sjá hvað gerist og hvort við bregðumst eitthvað við meira.“