Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Þriðjungur stúdenta glímir við alvarlegan fjárhagsvanda

21.05.2021 - 08:51
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Um þriðjungur íslenskra háskólanema telur sig glíma við alvarlegan eða mjög alvarlegan fjárhagsvanda, samkvæmt nýbirtum niðurstöðum könnunar, sem var gerð árið 2019, á högum háskólanema í 26 Evrópulöndum.

Á Íslandi er hlutfall nemenda sem telja sig ekki hafa fjárhagslega burði til að stunda nám án þess að vinna hærra en í nokkru öðru Evrópulandi sem tók þátt í könnuninni, 71 prósent. Fjárhagsstaðan er verst meðal þeirra nema sem koma úr fjölskyldum þar sem foreldrar hafa ekki sjálfir háskólamenntun.

Um 72 prósent íslenskra háskólanema vinna með námi, en það er þriðja hæsta hlutfall vinnandi háskólanema í þeim löndum sem könnunin nær til og það hæsta á Norðurlöndunum. Nemendur sem ekki eiga háskólamenntaða foreldra eru mun líklegri en aðrir til að hafa unnið áður en þeir hófu háskólanám. 

Könnunin EUROSTUDENT náði til háskólanema í grunn- og meistaranámi við alla háskóla á Íslandi og er byggð á ítarlegum svörum rúmlega 2.600 þátttakenda. Íslenski hluti könnunarinnar var unnin af mennta- og menningarmálaráðuneyti og gerð af Maskínu.