Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Fimm fersk í hvítasunnustuðið

Mynd með færslu
 Mynd: Joe Vozza - Island Records

Fimm fersk í hvítasunnustuðið

21.05.2021 - 14:10

Höfundar

Þetta er ekki flókið í Fimmunni að þessu sinni og í boði frekar poppþéttar melódíur í rokkréttu samhengi eins og synir skiptistöðvarinnar í Kópavogi, Fræbbblarnir, sögðu eitt sinn þegar enn mátti reykja í strætó. Í boði að þessu sinni er spriklandi ferskt samstarf síldanna Sharon Van Etten og Angel Olsen; Glass Animals og Bree Runway sem syngja um drauga; St Vincent sem gerir upp æskuna; Biig Piig sem bætir á sig enn einum stimplinum og Easy Life eru bara í frekar góðum gír.

Sharon Van Etten & Angel Olsen - Like I Used To

Vinkonurnar Sharon Van Etten og Angel Olsen hafa verið með þeim virtari í indírokk-senunni síðustu ár og verið að fylgjast hvor með annarri í laumi samfara því að rekast öðru hverju á hvor aðra. Þessi hrifning leiddi til sífellt innilegri samskipta og að lokum samstarfs sem byrjaði í fyrra og er loks að koma út í formi lagsins Like I Used To sem tónlistarpressan er búinn að slefa yfir í tæpan sólarhring.


Glass Animals, Bree Runway - Space Ghost, Coast To Coast

Annað skemmtilegt samstarf er á milli hljómsveitarinnar Glass Animals og söngkonunnar Bree Runway sem þeir heyrðu í fyrir nokkrum misserum. Lagið sem varð fyrir valinu sem samstarf var síðan endurgerð af lagi Glass Animals, Space Ghost, Coast To Coast sem fékk í tilefni af því frekar súrt myndband.


St. Vincent - Down

St. Vincent hefur sent frá sér lagið Down sem er þriðja lagið sem er gefið út af plötunni Daddy’s Home, sem kom einmitt út í síðustu viku. Platan er uppgjörsplata Önnu, fyrsta bindi, og byrjar á þeim tímapunkti þegar glæponinn pabbi hennar losnaði úr steininum og skellti Sly & the Family Stone á fóninn.


Biig Piig - Lavender

Það er mismunandi hvort tónlistarkonan Biig Piig er kölluð rappari eða neo-sálartónlistar-díva, en í laginu Lavander er hún líklega sálarmegin í lífinu þó hún sé augljóslega að daðra mest við bleassað indí-rokkið. Þetta er allt saman frekar ruglingslegt og erfitt fyrir okkur flokkarana sem viljum hafa allt í röð og reglu, en það er fasti að lagið er tekið af sex laga þröngskífunni Sky Is Bleeding.


Easy Life - Skeletons

Hljómsveitin Easy Life er eflaust enn í skýjunum yfir sigri sinna manna, Leicester City, í FA bikarnum á dögunum eftir 137 ára bið. Strákarnir vöktu athygli í fyrra þegar BBC skellti þeim á Sound of 2020 hilluna og gefa út sína fyrstu plötu í næstu viku og lagið Skeletons er einmitt að finna á henni.


Fimman á Spotify