Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

„Þátttaka er eitt og það að hafa áhrif er annað“

The helicopter with German Chancellor Angela Merkel and Environment Minister Sigmar Gabriel flies over the Eqi Glacier in lulissat, Greenland, Denmark, 17 August 2007. Upon conclusion of her visits to Greenland Merkel voiced her optimisim regarding the
Frá Grænlandsjökli Mynd: EPA - POOL
Leiðtogar frumbyggjasamtaka á norðurslóðum minntu í dag á mikilvægi þess að þeir fengju að taka þátt í ákvörðunum sem snertu þeirra samfélög, þeir væru upplýstir um þær rannsóknir sem færu fram á þeirra samfélögum og fengju upplýsingar um mengun og eiturefni í umhverfinu. Leiðtogarnir ávörpuðu ráðherrafund Norðurskautsráðsins í morgun. Þeir sögðust myndu halda áfram að leggja sitt af mörkum til að hafa áhrif á norðurslóðum. 

Sumir leiðtoganna þökkuðu fyrir að hafa fengið aðkomu að gerð stefnu ráðsins til næstu tíu ára og tækifæri til að koma áherslum frumbyggja þar að. Það sögðu þeir framför. Þeir lýstu áhrifum loftslagsbreytinga á samfélög frumbyggja og hversu áþreifanleg og skaðleg þau væru. Fulltrúar frumbyggjasamfélaga fögnuðu því að Rússar hygðust leggja sérstaka áherslu á menningu og tungumál frumbyggja á norðurslóðum í formennskutíð sinni næstu tvö árin. 

James Stotts, forseti samtakanna ICC Alaska, hrósaði Íslendingum fyrir að stýra vinnu við stefnu ráðsins til næstu tíu ára. Hann gaf í skyn að þrátt fyrir að frumbyggjasamtök hefðu aðkomu að Norðurskautsráðinu hefðu þau ekki næg áhrif: „Þátttaka er eitt og það að hafa áhrif er annað,“ sagði hann. Hann minnti á að á norðurslóðum byggi fólk sem þráði hreina náttúru, aðgang að auðlindum og tækifæri til að lifa góðu lífi. Hann sagði samfélögin verða að hafa aðild að umræðu um reglur í kringum veiðar og leiðir frumbyggja til að afla matar, og minntist á mikilvægi þess að frumbyggjasamfélög hefðu aðgengi að vernduðum svæðum. „Okkar sýn á málefni norðurslóða hefur sitt að segja. Við viljum að ráðið hugi að okkar áherslum og notfæri sér okkar þekkingu.“

Christina Henriksen, forseti Sama-ráðsins, hvatti Norðurskautsráðið til þess að tryggja að frumbyggjar bæru ekki meiri þunga en aðrir af viðbrögðum við loftslagsbreytingum á norðurslóðum. Þeir hefðu nú þegar þurft að bera þungann af áhrifum loftslagsbreytinga. Hún benti á að áhugi á fjárfestingu á norðurslóðum væri gjarnan á kostnað þeirra sem þar byggju og minnti á mikilvægi þess að norðurskautsríkin bæru virðingu fyrir samfélögum frumbyggja og þeirra umhverfi. 

Utanríkisráðherrar norðurskautsríkjanna fluttu allir ávarp á fundinum. Í takt við áherslur ráðsins síðustu tveggja ára lögðu þeir áherslu á málefni samfélaga á norðurslóðum. Þá ræddu þeir mikilvægi þess að draga úr plastmengun í hafi, finna leiðir til að draga úr loftslagsbreytingum og milda áhrif þeirra á norðurslóðir og samfélögin þar.