Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Segja ummæli Drífu sorglegan og annarlegan áróður

20.05.2021 - 02:12
Mynd með færslu
 Mynd: Play
PLAY segir ummæli Drífu Snædal, forseta ASÍ, um launakjör starfsmanna fyrirtækisins vera sorglegan og annarlegan áróður. Fyrirtækið lýsir yfir sárum vonbrigðum með að hún „skuli bregða fæti fyrir nýtt flugfélag sem er beinlínis stofnað til að færa Íslendingum kjarabætur í formi lægri flugfargjalda," segir í fréttatilkynningu PLAY.

Fyrirtækið segir staðhæfingu ASÍ um að PLAY greiði lægri laun en gengur og gerist á íslenskum vinnumarkaði ranga. Í tilkynningunni segir að lægstu föstu laun fyrirtækisins verði rúm 350 þúsund.

Í yfirlýsingunni er haft eftir Birgi Jónssyni, forstjóra PLAY, að það sé „gríðarlega alvarlegt að ASÍ skuli með þessum hætti stíga fram með staðhæfingar sem ekki eiga við rök að styðjast," og sýna svo þann valdhroka að hvetja til sniðgöngu. Hann segir fyrirtækið tilbúið að fyrirgefa ASÍ ef ásakanirnar verða dregnar til baka, annars ætli félagið að leita réttar síns „til að bæta þann skaða sem ASÍ veldur með því að skora á fólk að sniðganga PLAY."

PLAY gerði kjarasamning við Íslenska flugstéttafélagið, sem áður var með samning við WOW air. Flugfreyjufélag Íslands fór ítrekað fram á að Play gerði samning við félagið, en því var hafnað. Miðstjórn ASÍ sendi frá sér ályktun í gær þar sem þess er krafist að Play „gangi til kjaraviðræðna við raunverulegt stéttarfélag flugfreyja og -þjóna á Íslandi - Flugfreyjufélag Íslands." Stjórnin ætlast jafnramt til þess að Samtök atvinnulífsins „beiti sér fyrir raunverulegum kjarasamningi." Þá segist ASÍ vera í vafa um lögmæti kjarasamnings Play við Íslenska flugstéttafélagið.

Play vísar í fréttatilkynningu sinni allri gagnrýni ASÍ á bug.