Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Mikil hraunelfur aftan við eystri varnargarðinn

Mynd: Emilía Guðgeirs / RÚV
Mikil hraunelfur opnaðist í hádeginu aftan við eystri varnargarðinn við Fagradalsfjalla. „Það er rauðglóandi hraun upp við allan garðinn núna,“ segir Hörn Hrafnsdóttir, verkfræðingur hjá Verkís. Rætt var við hana í beinni útsendingu í hádegisfréttum en þá var hún á gosstöðvunum.

Á Facebook síðu eldfjalla- og náttúruvárhóps Suðurlands segir að farvegir neðanjarðar veiti bráð að jaðri hrauntjarnarinnar ofar í hrauninu. Megin hraunáin úr gígnum liggur til austurs úr Geldingadölum yfir í Nafnlausa dalinn. Undanhlaup af þessu tagi komi ekki á óvart. 

„Hraunáin liggur mun hærra uppi heldur en hraunjaðarinn við varnargarðana og er ljóst að hraunjaðarinn mun einungis halda áfram að þykkna og skríða fram á við á meðan þær aðstæður eru fyrir hendi.“ 

Greinilega megi sjá þegar spólað er til baka í vefmyndavél RÚV hvernig hraunjaðarinn við varnargarðinn lyftist upp nú fyrir hádegi, áður en hraunbráðin braut sér loks leið út úr jaðrinum.