Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Hefur áhyggjur af vaxandi verðbólgu

20.05.2021 - 22:10
Mynd: Freyr Arnarson / RÚV
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segir ástæðu til að hafa áhyggjur af vaxandi verðbólgu, en hún hefur ekki mælst meiri í tæpan áratug. Seðlabankinn hækkaði stýrivexti í gær til að bregðast við þessari þróun.

Verðbólgan mældist 4,6 prósent í síðasta mánuði og hefur verið yfir 2,5 prósenta verðbólgumarkmiði Seðlabankans frá því í maí í fyrra. Síðast fór verðbólgan yfir 4,6 prósent í febrúar árið 2013.

Miklar hækkanir á fasteignamarkaði skýra þessa þróun að hluta, en einnig gengislækkun krónunnar og hækkun launa.

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segir ástæðu til að hafa áhyggjur af þróun mála.

„Og þess vegna þurfum við að horfa til þess hvað hægt er að gera og það eru margir sem koma þar að málum. Við þurfum að skoða beitingu opinberu fjármálanna, eftir atvikum greina vandann betur. Skoða hvort það er einhver framboðsvandi á húsnæðismarkaði. Það er ekki alveg augljóst að svo sé en skipulagsmál sveitarfélaganna skipta samt sem áður mjög miklu máli. Krafan um launahækkanir á vinnumarkaði hefur líka áhrif. Þannig að það er áhyggjuefni að verðbólgan mælist þetta há en hún er ekki komin úr böndunum, alls ekki og vextir eru þrátt fyrir allt mjög lágir í sögulegu samhengi,“ segir Bjarni.

Hann segir að staða heimilanna sé almennt sterk og þetta eigi ekki að grafa undan þeirri stöðu.

„Það sem er ástæða til að hafa áhyggjur af er að ef okkur tekst ekki að ná stjórn á þessum aðstæðum. Þá er hætta á því að vextir hækki frekar og þá fer af stað keðjuverkun sem við viljum ekki sjá. Við höfum ekki búið við það undanfarin ár, heldur höfum við notið góðs af efnahagslegum stöðugleika og bætt staða heimilanna er ekki síst út af lægra vaxtastigi,“ segir Bjarni.

Höskuldur Kári Schram
Fréttastofa RÚV