Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Bindur vonir við að bótagreiðslur hefjist eftir tvö ár

Mynd með færslu
 Mynd: Aðsend mynd
Franskur áfrýjunardómstóll staðfesti í morgun að TUV Rheinland, sem hafði eftirlit með framleiðslu PIP brjóstafyllinga, beri að greiða 2.500 konum skaðabætur vegna galla í púðunum. Lögmaður íslenskra kvenna í samhliða hópmálssókn segir öruggt að dómur falli með sama hætti í máli þeirra.

Erlendir miðlar, á borð við breska ríkisútvarpið, hafa gert dómnum skil í morgun. Saga Ýrr Jónsdóttir, lögmaður þeirra íslensku kvenna sem taka þátt í annarri hópmálssókn gegn fyrirtækinu, segir mikilvægan áfangasigur hafa unnist. 

„Þetta eru jákvæð teikn þegar málið sigrast á þessu dómsstigi. Þetta verður til þess að Hæstiréttur, Cour de Cassation, getur staðfest niðurstöðu áfrýjunardómstólsins í þessu máli og fundið TUV skaðabótaskylt með endanlegri niðurstöðu.“ 

Saga segir að það sem gerist í öðru málinu hafi áhrif á niðurstöðun hins en henni þykir þó líklegt að TUV áfrýi málinu. Fyrirtækið var dæmt skaðabótaskylt vegna ágalla við svokalllaða CE vottun á fyllingunum.

Í október 2018 ógilti Hæstiréttur Frakklands sýknudóm áfrýjunardómstóls í málinu gegn TUV. Saga segir lítið upplýsingaflæði hafa verið í málinu, sem sé eðlilegt, en erfitt sé að geta ekki veitt umbjóðendum sínum þær upplýsingar sem hún vildi. 

Sömuleiðis sé snúið að útskýra hví málið taki langan tíma. Það sé þó eðlilegt því málið sé gríðarstórt og feli í sér mikla yfirferð fyrir dómstólana. Þetta mál sé viðamesta hópmálssókn í Frakklandi og aldrei hafi jafnmargar íslenskar konur tekið þátt í hópmálssókn.

Mestu skipti þó að endanleg niðurstaða verði jákvæð. Saga telur að málið verði til þess að framleiðendur og eftirlitsaðilar vandi sig meira, það verði þungur skellur fyrir TUV tapi fyrirtækið á endanum.

„Þetta hefur alltaf mikil áhrif, hvernig sem málið endar, málaferlin ein og sér eiga að hafa áhrif á eftirlitsaðila við að vanda vinnubrögðin.“

Nokkur tími muni líða uns endanleg niðurstaða liggur fyrir, læknaráð sett saman af dómstólnum fari nú yfir gögn í málinu sem meti skaða kvennanna og hvaða bótagreiðslur hverri beri.

Mikill munur geti orðið milli hæstu og lægstu bóta. „Ég bind vonir við að farið verði að greiða bætur til íslenskra kvenna eftir svona tvö ár.“