Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Vongóður vegna fundar Blinken og Lavrov

19.05.2021 - 18:27
Mynd: Guðmundur Bergkvist / RÚV
Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarmálaráðherra, kvaðst vongóður um að fundur Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, og Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, í kvöld skili árangri. Samskipti ríkjanna hafa verið stirð og sagði Guðlaugur Þór mikilvægt að ráðamenn þeirra ræddu saman. Jafnframt sé brýnt að deilur ríkja nái ekki inn í störf Norðurskautsráðsins.

Guðlaugur Þór ræddi við Blinken í gær og ræðir við Lavrov á morgun. Í dag ræddi hann við utanríkisráðherra Svíþjóðar, Finnlands og Kanada.

„Á öllum fundunum var rædd þessi alvarlega staða sem komin er upp fyrir botni Miðjarðarhafs en auðvitað voru norðurslóðamálin mjög áberandi,“

„Krafan núna er númer 1, 2 og 3 að koma á vopnahléi og koma friðarferlinu aftur af stað. Það er augljóst að ef það er ekki unnið að þessum málum og fundin lausn, og við höfum lagt áherslu á tveggja ríkja lausn, þá er hætta á að aðstæður komi upp eins og núna sem eru alveg hræðilegar.

Guðlaugur ræddi meðal annars við sænskan kollega sinn um viðskiptasamstarf, finnska utanríkisráðherrann um afmæli stjórnmálasambands Íslands og Finnlands á næsta ári og við kanadíska utanríkisráðherrann um útvíkkaðan fríverslunarsamning ríkjanna. Þar verði augum sérstaklega beint að þjónustu.

Guðlaugur Þór sagði gott að utanríkisráðherrar Rússlands og Bandaríkjanna setjist niður og ræði saman. Hann sagði að fram til þessa hafi deilur milli ríkja ekki ná inn í Norðurskautsráðið þar sem unnið sé að mikilvægum málefnum. Sem betur fer hafi það tekist hingað til og kvaðst Guðlaugur Þór vona að svo yrði áfram.

Á morgun ræða Guðlaugur Þór og Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, saman. Hann gerir ráð fyrir að þeir ræði um norðurslóðamál og tvíhliða samskipti ríkjanna. „Þegar kemur að Norðurskautsmálum hefur það gengið mjög vel,“ sagði Guðlaugur Þór um samskipti ríkjanna í ljósi þátttöku Íslands í viðskiptabanni á Rússa og gagnkvæms viðskiptabanns Rússa. „Þótt svo við séum á sama stað og önnur vestræn ríki þegar kemur að því að gagnrýna Rússa fyrir ýmislegt þá hefur ýmislegt jákvætt gerst í samskiptum ríkjanna á sama tíma.