Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Segja mikilvægt að tala saman og vonast eftir árangri

19.05.2021 - 21:48
Mynd: Skjáskot / RÚV
Sergei Lavrov og Antony Blinken, utanríkisráðherrar Rússlands og Bandaríkjanna, lýstu von um að viðræður þeirra í Reykjavík í kvöld gætu skilað árangri í að ná saman um deilumál ríkjanna. Utanríkisráðherrarnir ávörpuðu hvor annan fyrir framan fjölmiðla við upphaf fundar þeirra í Hörpu í kvöld. Þeir voru sammála um mikilvægi þess að þjóðirnar ræddu saman um þau mál sem þær greinir á um.

Blinken byrjaði á því að lýsa ánægju sinni með að hitta Lavrov í fyrsta skipti. Hann sagði bandarísk stjórnvöld sækjast eftir fyrirsjáanlegu og stöðugu sambandi við Rússa, það væri gott fyrir báðar þjóðir og veröldina alla. „Við erum hér í dag vegna fundar Norðurskautsráðsins þar sem Rússland og Bandaríkin hafa átt gott samstarf til þessa og við hlökkum til að halda því áfram þegar þið takið við formennskunni í ráðinu.

Það er ekkert leyndarmál að okkur greinir á um ýmis mál,“ sagði Blinken. Hann sagði að ef Rússar beittu sér með ógnandi hætti þá myndu Bandaríkjamenn bregðast við til að verja hagsmuni sína og bandamanna sinna. „Hafandi sagt það þá eru mörg svið þar sem hagsmunir okkar fara saman og við teljum okkur geta byggt á þeim málum,“ sagði Blinken og nefndi COVID-19, kjarnorkumál Norður-Kóreu og Írans og stöðuna í Afganistan.“

Mynd með færslu
 Mynd: Gunnar Vigfússon - Utanríkisráðuneytið
Lavrov og Blinken ræddu saman eftir kvöldverð ráðherra aðildarríkja Norðurskautsráðsins.

Lavrov þakkaði Blinken fyrir að stinga upp á að halda fund þeirra hér og nú. Hann sagði að það væri mikilvægt fyrir samskipti ríkjanna og minnti á að Vladimír Pútín, forseti Rússlands, hefði sagt að ákveða yrði næstu skref í samskiptum þeirra. „Allir skilja stöðuna þegar fundur utanríkisráðherra tveggja aðildarríkja á jaðri fundar Norðurskautsráðsins vekur svona mikla athygli.“

„Staðan í samskiptum Washington og Moskvu hefur mikil áhrif á allan heiminn,“ sagði Lavrov. Fyrir þeim lægi að grípa tækifærið sem þeir hefðu til að vinna úr málum sínum.

„Afstaða okkar er skýr, við erum reiðubúnir að ræða öll mál í trausti þess að öll samskipti verði heiðarleg og byggi á gagnkvæmri virðingu og staðreyndum,“ sagði Lavrov.

Lavrov sagði sinn skilning vera þann, og staðfest í símtali forsetanna tveggja, að ráðherrarnir ættu að einbeita sér að málum þar sem þeir hefðu svipaða sýn og gætu náð jákvæðri niðurstöðu. Þarna leiðrétti Lavrov reyndar þýðanda sinn og sagði á ensku að hann ætti ekki endilega við sameiginlega sýn heldur sameiginleg markmið. Lavrov nefndi þar meðal annars ástandið í Afganistan, Íran og Krímskaga. Hann sagði að fulltrúar ríkjanna væru nú þegar byrjaðir að ræða þessi mál. Hann sagði markmið þeirra að byggja brýr og ná saman um mál.