Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Ráðherrar í efstu sætum hjá VG

Mynd með færslu
 Mynd: Grímur Jón Sigurðsson - RÚV
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hrepptu efstu sætin í forvali Vinstri grænna fyrir alþingiskosningar í haust. Þær skipta því efstu sæti í sitt hvoru Reykjavíkurkjördæminu fyrir næstu kosningar eins og þær fjórar síðustu.

Steinunn Þóra Árnadóttir þingmaður og Orri Páll Jóhannsson, aðstoðarmaður umhverfisráðherra, urðu í öðru sæti í forvalinu. Kosningin var tvöföld, það er að segja að kjósa átti tvo í hvert sæti þar sem forvalið var sameiginlegt fyrir bæði Reykjavíkurkjördæmin.

Vinstri-græn fengu fimm þingsæti í Reykjavík í síðustu kosningum, árið 2017, tvö í Reykjavík suður og þrjú í Reykjavík norður. Auk þeirra Katrínar, Svandísar og Steinunnar Þóru voru Andrés Ingi Jónsson og Kolbeinn Óttarsson Proppé kosnir á þing fyrir flokkinn í Reykjavík. Andrés Ingi yfirgaf flokkinn vegna óánægju með ríkisstjórnarsamstarfið og gekk síðar til liðs við Pírata. Kolbeinn dró framboð sitt til baka eftir að kvartað var undan hegðun hans gagnvart konum til fagráðs VG.

1. sæti Katrín Jakobsdóttir með 784 atkvæði í 1. sæti
1. sæti Svandís Svavarsdóttir með 714 atkvæði í 1. sæti

2. sæti Steinunn Þóra Árnadóttir með 487 atkvæði í 1.-2. sæti
2. sæti Orri Páll Jóhannsson með 459 atkvæði í 1.-2. sæti

3. sæti Eva Dögg Davíðsdóttir með 529 atkvæði í 1.-3. sæti
3. sæti Daníel E. Arnarson með 516 atkvæði í 1.-3. sæti

4. sæti Brynhildur Björnsdóttir með 693 atkvæði í 1.-4. sæti
4. sæti René Biasone með 545 atkvæði í 1.-4. sæti

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV