Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Norðurskautsráðið banni svartolíu á norðurslóðum

Mynd: RÚV / RÚV
Formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands vonar að á ráðherrafundi Norðurskautsráðsins á morgun verði tekin ákvörðun um að bannað verði að nota svartolíu á norðurslóðum. Hann bindur vonir við að Ísland stuðli að því að í ráðherraályktun fundarins verði kafli um svartolíubann.

Ályktun Alþingis samþykkt

Þingsályktunartillaga utanríkisráðherra um stefnu Íslands í málefnum norðurslóða var samþykkt á Alþingi í dag. 55 þingmenn greiddu atkvæði með tillögunni, átta voru fjarstaddir. Tillagan var unnin af þverpólitískri þingmannanefnd. Í henni er meðal annars lögð áhersla á að dregið verði úr notkun jarðeldsneytis á norðurslóðum og að skip hætti að nota svartolíu. Árni Finnsson, formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands, sendi utanríkismálanefnd Alþingis bréf á mánudaginn þar sem hann hvetur Alþingi til að samþykkja að bruni og flutningur svartolíu verði bannaður hið fyrsta - en hvers er íslensk þingsályktunartillaga megnug?

„Hún þýðir kannski fyrst og fremst það að Ísland sýnir á spilin og segir að við viljum banna svartolíu. Það er að vísu ekki tekið þannig til orða en niðurstaðan verður sú ef Ísland nær þessu fram,“ segir Árni. Hann segir að Norðurlöndin séu fylgjandi þessu. Væntanlega líka Bandaríkin vegna þess að þar sé komin ný stjórn.

„Þetta er ákveðnari og skýrari afstaða heldur en verið hefur hjá Íslandi og skiptir miklu máli núna þegar farið er inn í þennan ráðherrafund norðurskautsríkjanna á morgun. Við erum að vona og ég held að Ísland stuðli að því að í ráðherraályktuninni verði kafli um svartolíu sem kalli eftir því að bruni á svartolíu verði bannaður á norðurslóðum. Skrúfað verði fyrir losun þessara skipa sem brenna svartolíu. Sem losa gríðarlega mikið magn af sóti sem sest á ís og jökla sem dregur úr endurskini sólar. Þannig að hitinn hraðar bráðnuninni. Ef þetta yrði bannað myndi það seinka eða draga úr loftslagsáhrifum á norðurslóðum um 20 ár. Gefa okkur 20 ára lengri frest og það skiptir gríðarlega miklu máli,“ segir Árni.

Bann í landhelginni

Í byrjun síðasta árs gekk í gildi íslensk reglugerð um bann við að nota svartolíu innan 12 mílna landhelgi Íslands. Brennisteinsinnihald svartolíunnar má ekki vera yfir 0,1%. Leyfilegt brennisteinsinnilhald var var almennt um 3,5% en það hefur verið lækkað niður í 1% á alþjóðavísu. Sótagnir ógna umhverfinu og jöklum á norðurslóðum. Frá 2015 til 19 jókst magn sótagna frá siglingum á Norðurslóðum um 72% frá skipum sem brenndu svartolíu. Árni segir að vandamálið sé að umferð skipa sem nota svartolíu sé að aukast - og í því felist líka slysahætta.

„Verði slys þá er vonlaust að hreinsa þetta upp úr sjónum. Við getum hugsað okkur að eitt stórt skemmtiferðaskip norðan við land færi að leka. Þá myndi það valda miklum skaða. Líka skaða fyrir orðspor okkar sem fiskveiðiþjóð.“

Mikilvægt að ráðherrafundurinn taki ákvörðun

Alþjóðasiglingamálastofnunin samþykkti reyndar í haust tillögu um að svartolía yrði bönnuð frá árinu 2024. Árni segir að margar undanþágur séu frá banninu allt fram til ársins 2029. Það þýði að fram til þess tíma muni losun sóts á norðurslóðum einungis minnka um 5%. Hann segir að Rússar hafi einkum staðið í vegi fyrir því að allsherjarbann verði samþykkt í Norðurskautsráðinu. Mjög mikilvægt sé að á fundi norðurskautsráðsins hér í Reykjavík náist samstaða um að banna notkun svartolíu alfarið.

„Það skiptir gríðarlega miklu máli að morgun komi út skýr niðurstaða um að svartolíu eigi að banna. Það er að vísu búið að banna hana en það er mjög veikt bann.“