Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Meta hvort hætta skuli loftárásum á Gaza

epa09209953 Smoke rise after israeli airstrikes in Gaza City, 18 May 2021. In response to days of violent confrontations between Israeli security forces and Palestinians in Jerusalem, various Palestinian militants factions in Gaza launched rocket attacks since 10 May that killed at least 12 Israelis to date. The Palestinian health ministry said that at least 213 Palestinians, including 61 children, were killed in the retaliatory Israeli airstrikes.  EPA-EFE/MOHAMMED SABER
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Ísraelsmenn eru sagðir vera að meta hvort nú sé rétti tíminn til að hætta loftárásum á Gaza-svæðið. Þeir séu þó reiðubúnir að halda þeim áfram enn um sinn. Þrýst er á ísraelsk stjórnvöld alls staðar að um að semja um vopnahlé, þar á meðal frá Bandaríkjunum.

AFP-fréttastofan hefur eftir heimildarmanni í Ísraelsher að verið sé að meta hvort aðstæður hafi skapast til að láta af árásum á herskáa Palestínumenn á Gaza. Sé sú ekki raunin sé herinn tilbúinn til að halda áfram hernaðaraðgerðum næstu daga.

BBC hafði eftir heimildarmanni sínum innan hersins í dag að vopnahlé væri ekki í sjónmáli. Þá var engan bilbug að heyra á Benjamín Netanyahu forsætisráðherra þegar hann ræddi við erlenda fréttamenn í Tel Aviv í morgun. Annað hvort yrðu Hamas-samtökin brotin á bak aftur eða knúin til samninga, en öllum möguleikum væri haldið opnum. 

Haft er eftir embættismönnum Hamas í Katar að stöðugar viðræður um vopnahlé standi yfir, en enn hafi ekki verið gengið að kröfum Palestínumanna. Þjóðarleiðtogar víða um heim þrýsta á ísraelsk stjórnvöld að láta af loftárásum á Gaza, þeirra á meðal Joe Biden Bandaríkjaforseti.

Hernaðaraðgerðirnar hafa staðið frá mánudegi í síðustu viku. Þær hafa kostað 219 Palestínumenn lífið, nánast allt almenna borgara. Tólf hafa fallið Ísraelsmegin, einnig aðallega almennir borgarar. 

Lögðu fram bókun í utanríkismálanefnd 

Þingmenn Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Miðflokksins í utanríkismálanefnd lögðu fram bókun á fundi nefndarinnar í morgun þar sem árásir á almenna borgara undanfarna daga á svæðum Ísraels og Palestínumanna eru fordæmdar.

Áheyrnarfulltrúi Pírata styður bókunina en þingmenn Vinstri grænna, Framsóknar og Sjálfstæðisflokks í utanríkismálanefnd gera það ekki.

Í bókuninni er jafnframt hvatt til þess að utanríkisráðherrar Norðurlandanna beiti sér sameiginlega á alþjóðlegum vettvangi, krefjist þess að vopnahléi verði komið á tafarlaust og að ríkisstjórn Íslands beiti sér fyrir því að neyðaraðstoð og hjálpargögnum verði komið til nauðstaddra.