
Meta hvort hætta skuli loftárásum á Gaza
AFP-fréttastofan hefur eftir heimildarmanni í Ísraelsher að verið sé að meta hvort aðstæður hafi skapast til að láta af árásum á herskáa Palestínumenn á Gaza. Sé sú ekki raunin sé herinn tilbúinn til að halda áfram hernaðaraðgerðum næstu daga.
BBC hafði eftir heimildarmanni sínum innan hersins í dag að vopnahlé væri ekki í sjónmáli. Þá var engan bilbug að heyra á Benjamín Netanyahu forsætisráðherra þegar hann ræddi við erlenda fréttamenn í Tel Aviv í morgun. Annað hvort yrðu Hamas-samtökin brotin á bak aftur eða knúin til samninga, en öllum möguleikum væri haldið opnum.
Haft er eftir embættismönnum Hamas í Katar að stöðugar viðræður um vopnahlé standi yfir, en enn hafi ekki verið gengið að kröfum Palestínumanna. Þjóðarleiðtogar víða um heim þrýsta á ísraelsk stjórnvöld að láta af loftárásum á Gaza, þeirra á meðal Joe Biden Bandaríkjaforseti.
Hernaðaraðgerðirnar hafa staðið frá mánudegi í síðustu viku. Þær hafa kostað 219 Palestínumenn lífið, nánast allt almenna borgara. Tólf hafa fallið Ísraelsmegin, einnig aðallega almennir borgarar.
Lögðu fram bókun í utanríkismálanefnd
Þingmenn Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Miðflokksins í utanríkismálanefnd lögðu fram bókun á fundi nefndarinnar í morgun þar sem árásir á almenna borgara undanfarna daga á svæðum Ísraels og Palestínumanna eru fordæmdar.
Áheyrnarfulltrúi Pírata styður bókunina en þingmenn Vinstri grænna, Framsóknar og Sjálfstæðisflokks í utanríkismálanefnd gera það ekki.
Í bókuninni er jafnframt hvatt til þess að utanríkisráðherrar Norðurlandanna beiti sér sameiginlega á alþjóðlegum vettvangi, krefjist þess að vopnahléi verði komið á tafarlaust og að ríkisstjórn Íslands beiti sér fyrir því að neyðaraðstoð og hjálpargögnum verði komið til nauðstaddra.