Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Lilja og Ásmundur Einar leiða lista Framsóknar

Mynd með færslu
 Mynd: Grímur Jón Sigurðsson - RÚV
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra og Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, leiða lista Framsóknarflokksins í Reykjavík fyrir alþingiskosningar í haust. Fyrrverandi borgarfulltrúi Samfylkingarinnar skipar þriðja sætið á lista Framsóknarflokksins í Reykjavík suður.

Kjördæmasamband Framsóknarmanna í Reykjavík samþykkti listana fyrir Reykjavíkurkjördæmin tvö á fundi sínum í kvöld. Í öðru sæti á eftir Lilju á lista flokksins í Reykjavíkurkjördæmi suður situr Aðalsteinn Haukur Sverrisson, framkvæmdastjóri. Sigrún Elsa Smáradóttir, framkvæmdastjóri skipar þriðja sætið. Hún var varaborgarfulltrúi Reykjavíkurlistans og síðar Samfylkingarinnar í Reykjavík 1998 til 2007 og borgarfulltrúi 2007 til 2010. Íris E. Gísladóttir, formaður UngFramsókn í Reykjavík, hreppir það fjórða.

Brynja Dan, framkvæmdastjóri og frumkvöðull skipar annað sætið í Reykjavíkurkjördæmi norður á eftir Ásmundi Einari. Þórunn Sveinbjörnsdóttir, fráfarandi formaður Landssambands Eldri borgara er í þriðja sæti og Gauti Grétarsson sjúkraþjálfari er í fjórða sæti.

Mynd með færslu
 Mynd: Alþingi
Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV