Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Lavrov lentur í Keflavík - ræðir við Katrínu og Blinken

19.05.2021 - 17:33
Mynd: Þór Ægisson / RÚV
Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, er lentur í Keflavík. Lavrov sækir ráðherrafund Norðurskautsráðsins og ætlar meðal annars að eiga fund með Katrínu Jakobsdóttur, forsætisráðherra Íslands. Mesta spennan ríkir þó um fund hans og Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, en samskipti stórveldanna hafa verið ákaflega stirð að undanförnu.

Í umfjöllun CBS-fréttastofunnar kemur fram að samband Rússa og Bandaríkjanna hafi ekki verið jafn slæmt síðan í „kalda stríðinu“.

Vonast er til að fundur utanríkisráðherranna í Reykjavík verði til þess að draga úr spennu milli  landanna og leggi grunninn að hugsanlegum leiðtogafundi milli Vladimírs Pútín og Joe Biden. 

Ráðherrarnir hafa nóg að tala um; meðferð Rússa á stjórnarandstöðuleiðtoganum Alexei Navalny, viðskiptaþvinganir Bandaríkjanna gegn Rússum og ásakanir Bandaríkjamanna um afskipti Rússa af forsetakosningunum í Bandaríkjunum - að ekki sé minnst á loftárásir Ísraels á Gaza-svæðið.  

Þótt lengi hafi andað köldu milli Rússlands og Bandaríkjanna náðu samskipti landanna nýjum lægðum þegar Biden tók undir þá mannlýsingu á Pútín að hann væri morðingi. Diplómatar voru kallaðir heim til skrafs og ráðagerða, nýjar viðskiptaþvinganir litu dagsins ljós og erindrekum vísað úr landi.

Rússar hafa sett Bandaríkin á lista yfir óvinveittar þjóðir en embættismenn hafa gefið í skyn að rússnesk yfirvöld séu reiðubúin að gleyma orðum Bidens ef af fundi hans og Pútín verður í sumar.

Mynd: Þór Ægisson / RÚV
freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV