Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Hættustigi lýst yfir í Austur-Skaftafellssýslu

19.05.2021 - 20:38
Mynd með færslu
 Mynd: Olga Björt Þórðardóttir - Aðsend mynd
Almannavarnir hafa lýst yfir hættustigi vegna gróðurelda í Austur-Skaftafellssýslu. Útlit er fyrir að þurrkar síðustu vikna haldi áfram og segja almannavarnir að líklega hafi aldrei verið mikilvægara að fara sérstaklega varlega með eld á grónum svæðum, sleppa grillnotkun og notkun verkfæra sem hitna.

Hættustig er nú í gildi á nær öllu vestanverðu landinu, nema hvað Reykjanesskagi er á óvissustigi eftir rigningu og snjókomu nýlega. Nú bætist Austur-Skaftafellssýsla við, svæðið suður af stærstum hluta Vatnajökuls. 

Öll meðferð opins elds er bönnuð á svæðum þar sem hættustig er í gildi. Þar sem hætta er á gróðureldum er sumarbústaðaeigendum í grónu landi ráðlagt að vera undir það búnir að ráða við minniháttar eld. Þar skipti hver mínúta máli. Jafnframt á alltaf að hringja strax í 112 og láta vita af gróðureldum.

Viðbrögð við gróðureldum (grodureldar.is)

 • Fyrstu viðbrögð við gróðureldi eru að hringja í Neyðarlínuna 112, greina frá því hvar eldurinn er og lýsa staðsetningu og staðháttum.
 • Leggðu mat á aðstæður og reyndu að slökkva eldinn sem fyrst ef aðstæður leyfa án þess að taka áhættu, hafðu eigið öryggi alltaf í forgangi.
 • Sækja skal að eldi undan vindi þannig að reykmengun hindri ekki yfirsýn og aðgerðir. Reykur frá gróðureldum í of miklu magni getur verið lífshættulegur.
 • Klöppur, skóflur eða önnur áhöld og vatn ættu alltaf að vera tiltæk.
 • Sé ekki ráðið við eldinn, t.d. vegna hvassviðris, skal gera ráðstafanir og mynda eldvarnarlínu í nægilegri fjarlægð undan vindi, til dæmis með því að bleyta í gróðri eða ryðja honum í burtu.

Almenningur og sumarhúsaeigendur eru eftir sem áður beðnir um að hafa í huga:

 • Ekki kveikja eld innan sem utandyra (vinnuvélar, kamínur, grill, varðeldar, flugeldar og fleira).
 • Ekki nota einnota grill sem og venjuleg grill þar sem gróður er þéttur.
 • Kanna flóttaleiðir við sumarhús.
 • Huga að brunavörnum (slökkvitæki, reykskynjarar) og gera flóttaáætlun.
 • Ekki vinna með verkfæri sem hitna mikið eða valda neista.
 • Fjarlæga eldfim efni við hús (huga að staðsetningu gaskúta).
 • Bleyta í gróðri kringum hús þar sem þurrt er.