Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Fundi Lavrovs og Blinkens lokið

Mynd: Skjáskot / RÚV
Fundi Sergei Lavrovs, utanríkisráðherra Rússlands, og Antony Blinkens, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, lauk um klukkan ellefu í kvöld. Hvorugur þeirra svaraði spurningum að fundi loknum. Þeir gengu beint að bílum sem fluttu þá á brott, fyrst Blinken og nokkrum mínútum síðar Lavrov. Rússneskir fjölmiðlar höfðu þó eftir Lavrov, fljótlega eftir fundinn, að honum hefði virst sem viðræðurnar hefðu verið uppbyggilegar.

„Það ríkir skilningur á þörfinni fyrir að yfirvinna það óheilbrigða ástand sem ríkir í samskiptum ríkjanna,“ sagði Lavrov við rússneska fjölmiðla. Hann sagði talsverðar hindranir í samskiptum ríkjanna um þessar mundir og það yrði ekki auðvelt að vinna sig í gegnum þær. Hann hefði þó fundið vilja til þess hjá Blinken og starfsliði hans. „Við samþykktum að halda samstarfi ríkjanna áfram - sem hingað til hefur heppnast nokkuð vel - á átakasvæðum þar sem hagsmunir Bandaríkjanna og Rússlands skarast,“ bætti hann við.

Talsmaður Blinkens sagði eftir fundinn að hann hefði lýst alvarlegum áhyggjum af veru rússneskra hermanna í Úkraínu. 

Fundur þeirra hófst upp úr klukkan níu í kvöld, að loknum vinnukvöldverði ráðherra þeirra ríkja sem aðild eiga að Norðurskautsráðinu. Blinken og Lavrov lásu upp yfirlýsingar við upphaf fundarins meðan fjölmiðlar máttu enn vera viðstaddir. Báðir töluðu um erfiðleika í samskiptum ríkjanna sem leysa þyrfti úr. 

Síðast uppfært 23:40: Búið er að bæta við tilvitnunum úr rússneskum fjölmiðlum og yfirlýsingu talsmanns Blinkens. Myndskeiðin að ofan tók Þór Ægisson tökumaður.