Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Frumraun sem lítur alls ekkert út eins og frumraun

Mynd: Forlagið / Samsett

Frumraun sem lítur alls ekkert út eins og frumraun

19.05.2021 - 11:33

Höfundar

Karl Ágúst Úlfsson tekst á við stórar spurningar um lífið í skáldsögunni Eldur í höfði, frumraun sem kemur á óvart og feykir fordómum út í veður og vind segir Gauti Kristmannsson gagnrýnandi.

Gauti Kristmannsson skrifar: 

Leitin að tilgangi, eða kannski öllu heldur merkingu lífsins er eldfornt viðfangsefni bókmennta og lista, rétt eins og heimspekinnar, nú eða raunvísindanna. Háðfuglar gera stundum grín að því og reyna að afhjúpa hátimbraðar tilraunir listamanna til rannsaka þessar stærstu spurningar tilverunnar. Minna grín er gert að heimspekingum eða raunvísindamönnum. Og vafalaust hafa ýmsir höfundar farið fram úr sér í þessari leit, en þó eru þau fleiri en mörg sem hafa skrifað ógleymanlega texta um hana. En það er þröngur vegur að ganga, býst ég við.

Þessi bók hefur líka ýmsar áskoranir að geyma fyrir réttan og sléttan gagnrýnanda. Þetta er fyrsta bók höfundar, höfundar sem löngu er orðinn þjóðkunnur fyrir margvísleg verk sín á leiksviði og í sjónvarpi, og oftar af því tagi sem fellur undir gamanleiki og hreinlega satíru. Hann er því með ákveðna ímynd í hugum lesenda, til að mynda sem háðfugl. Önnur ögrun felst í viðfangsefninu, að segja söguna frá sjónarhorni manns sem veikur er á geði, en það getur verið ferð um jarðsprengjusvæði að reyna það.

En þessi saga er ekkert grín, þvert á móti, hún tekur á stórum spurningum um lífið og það er sannarlega ekki farin stysta leið að markinu. Sögumaðurinn lærði verkfræði og hafði gríðarlegan áhuga á stærðfræði og tengslum hennar við tilgang lífsins áður en hann var vistaður á geðdeild. Höfundurinn nýtir sér fjöldann allan af grundvallarspurningum stærðfræðinnar, einkum frá fornöld og tengir saman við tilveruna sem sögumaður býr til í höfði sér. Sögumaður er vissulega geðveikur og gerir sér það vel ljóst sjálfur, en hann hefur lengi barist við að tengja rök stærðfræðinnar við merkingu lífsins ásamt félögum sínum við danska tækniháskólann, þeim Mette og Niklas. Þau hófu þessa leiki í námi og hann heldur því áfram það sem eftir er og fléttast það allt inn í frásögnina með gríðarlega áhugaverðum hætti.

Lesendur þurfa ekki að óttast að lítil stærðfræðikunnátta verði þeim fjötur um fót, framsetningin er ótrúlega rökrétt og einföld í margbreytileika sínum. Auðsætt er að höfundur hefur þaulrannsakað viðfangsefnið og tekst listilega að blanda því saman við frásögnina af ævi unga mannsins sem verður geðveikur, hugsanlega vegna fikts við sveppaneyslu, en þó ekki endilega, hann var kominn út á þessa braut áður en hann verður veikur eftir það. Inn í þetta blandast tónlist og arkitektúr og það er mikil drífandi í þessum hugleiðingum, þetta minnti jafnvel á Dan Brown á köflum, er bara miklu betur skrifað, finnst mér, og sagan er ekki ratleikur eins og hjá þeim höfundi, heldur miklu fremur leit að merkingu lífsins eins og áður sagði.

Sagan snýst líka um ástina, samband barna og foreldra, í tilfelli sögumanns er móðirin þýsk tónlistarkona og faðirinn íslenskur brúarsmiður. Fleiri flækjur koma í ljós sem ekki verða tíundaðar hér, en rökleg leitin að merkingu í gegnum stærðfræði, tónlist og verkfræði, speglast við atburði og áföll lífsins og er þetta afbragðsvel gert að mínu mati, óvenjuleg saga sögð frá óvenjulegum sjónarhóli, því þótt sögumaður sé geðveikur og við fáum kafla þar sem órar hans eða ranghugmyndir birtast, þá er mest af frásögninni ekki eins og geðveikur maður haldi á penna, heldur eins og maður sem vill af öllum kröftum fá einhvern botn í lífið. Þetta minnti mig flökkusöguna sem ég heyrði sagða um leikarann Michael Caine, sem átti að hafa sagt að til að leika drukkinn mann ætti leikarinn ekki ýkja fyllibyttutakta, heldur að reyna árangurslaust að líta út fyrir að vera ódrukkinn, því það væri það sem menn reyndu almennt að gera í þeim aðstæðum. Söguhetjan, Karl Magnús, er að reyna að halda sönsum með aðstoð stærðfræðinnar og fá þannig rökrétta mynd af heiminum, en samtímis leiðir hún hann æ lengra út í ranghugmyndir geðveikinnar.

Stíll bókarinnar mótast af því að hér er maður að færa nokkurs konar dagbók eða endurminningar, setningar eru stuttar og snarpar en renna samt ljúflega áfram með stærðfræðiformúlurnar inn á milli og vísanir í stærðfræðinga eins og Pýþagóras, Hippesus, Hypatíu og Arkímedes. Þetta gengur mjög vel upp, ég fékk á tilfinninguna að ég skildi þessar stærðfræðiformúlur, sem hefði komið mínum gömlu stærðfræðikennurum mjög á óvart. Skemmtilegt stílbragð felst í því að nota fornafn fyrir eitthvað sem nefnt hefur verið áður og klifa svo með nafnorðinu á eftir. Hér er dæmi: „Ég hætti að reyna að skilja og starði á hvítan vegg fyrir aftan prestinn Preben. Það var hrjúf áferð á honum. Veggnum.“ (185) Þetta gerir höfundur nokkuð reglulega í gegnum textann. Tungumálið er samt fullkomlega blátt áfram og höfundurinn nær fram stílhrifum sínum frekar með stærðfræðiformúlum og táknum.

Táknin í textanum eru einmitt önnur vídd sem höfundi tekst vel að byggja upp. Þar eru brýr í stóru hlutverki, Hvítárbrú og Golden Gate-brúin í San Francisco, en einnig tónlist, einkum tónlist eftir Josef Strauss, sem einnig var verkfræðingur, yngri bróðir Johanns Strauss II, valsakóngsins svonefnda. Dynamiden valsinn, sem Richard Strauss hnuplaði síðar í óperu sína um rósakavalérana er þar í forgrunni og aftur tekst höfundi afbragðsvel að tengja þetta allt saman svo að það er fullkomlega rökrétt fyrir lesandanum, sem þarf að minna sig á að þessar tengingar eiga að spretta úr huga geðveiks manns. Sannfæring hans er svo mikil að þessi lesandi fór að fylgja honum í leitinni sem færði hann líka áfram að óvæntum stöðum, frá fornöld til San Francisco og skipulags Parísarborgar.

Eldur í höfði kom mér verulega á óvart og verður það að skrifast á fordóma þá sem ég nefndi hér í upphafi, en þeir fuku fljótlega út í veður og vind og mér finnst aðdáunarvert hvernig þræðir sögunnar eru bundnir saman, þar virðist ekkert hafa verið órannsakað, og ekki oft sem maður gúglar spenntur hitt og þetta og kemst að því að allt er byggt á staðreyndum. Það eitt og sér er kannski ekkert stórmál, að unnt sé að staðreyna eitthvað sem fram er haldið í skáldsögu, en vefurinn sem ofinn er úr þessum staðreyndum er samfelldur og hnökralaus á að líta. Formið er þannig svo þaulunnið að þetta lítur alls ekki út eins og frumraun höfundar á þessu sviði; vissulega er Karl Ágúst þrautreyndur höfundur, en þetta er samt hans fyrsta skáldsaga og það liggur við að manni finnist hún hafa sprottið alsköpuð úr höfði Seifs eins og Pallas Aþena forðum. En grínlaust, þá hefur það varla verið nokkurt grín að skrifa þessa sögu um stærðfræðilegt raunsæi geðveiks manns, en það tekst í fullri alvöru.

Tengdar fréttir

Menningarefni

„Ég á henni svo mikið að þakka“