Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

ASÍ segir vaxtahækkun ekki vænlega á þessum tímapunkti

Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist - RÚV
Miðstjórn ASÍ mótmælir hækkun stýrivaxta Seðlabankans í ljósi þess að enn séu miklar takmarkanir á möguleikum atvinnulausra og fjölmörg fyrirtæki glími við rekstrarerfiðleika vegna sóttvarnaráðstafana.

Peningastefnunefnd tilkynnti hækkun stýrivaxta um 0,25 prósentustig í morgun, en það er fyrsta vaxtahækkun frá því í nóvember.

ASÍ bendir á að atvinnuleysi mælist enn yfir tíu prósent og að mörg heimili glími við tekjufall af völdum kórónuveirufaraldursins. Verðbólga sé enn mikil, sem orsakist af veikingu krónunnar, hrávöruverðshækkunum og ekki síst hækkun húsnæðisverðs.

Í því ljósi sé vaxtahækkun ekki eina leiðin til að takast á við verðbólgu, hækkun nú hægi á bata á vinnumarkaði og hafi neikvæð áhrif á hag heimila og fyrirtækja.

Hún gangi gegn því markmiði að tryggja afkomu fólks og efnahagslega virkni. Skoða þurfi aðrar aðferðir, til dæmis með því að beita strangari skilyrðum um lánveitingar til þeirra sem eigi fleiri en eina fasteign.

Það var mat Hagsjár Landsbankans í aðdraganda stýrivaxtahækkunarinnar að Seðlabankinn gripi frekar til annarra úrræða en vaxtahækkunar. Bankinn taldi stýrivaxtahækkun nú geta dregið úr efnahagsbatanum.

Greining Íslandsbanka hvatti Seðlabankann til að stíga varlega til jarðar til að ógna ekki batanum en taldi þó vaxtahækkun líklegri en ekki.

Miðstjórn ASÍ gagnrýndi hækkun á vaxtaálagi banka og fjármálastofnana þegar vextir voru lækkaðir, á tímum mikils hagnaðar þeirra, og áréttar að nú verði horft til viðbragða þeirra.