Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Vonast eftir árangursríkum fundi Norðurskautsráðs

Mynd: Freyr Arnarson / RÚV
Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands átti fund með Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, í dag. Guðni segist hafa tjáð vonir sínar um árangursríkan fund Norðurskautsráðsins og lýst vonum Íslendinga allra um að hægt yrði að koma á vopnahléi fyrir botni Miðjarðarhafs.

„Svo fór ég yfir áherslur íslenskra stjórnvalda í málefnum norðurslóða og almennt á sviði umhverfisverndar, mannréttindamála, kynjajafnréttis og annarra þátta sem ríkisstjórn Íslands hefur viljað leggja áherslu á í sambandi við komu hans hingað.“

Guðni segir að báðir hafi rætt það að meðan hér væri allt í frið og spekt væri óöld fyrir botni Miðjarðarhafs. „Ég bætti þar við að allur almenningur á íslandi hvetti til þess að þegar í stað yrði komið á vopnahléi.“

Forsetinn segist hafa fundið að þjóðirnar eigi samleið á mörgum mikilvægum sviðum, og tiltekur að loftslagsmál séu mál málanna að mati Bandaríkjastjórnar. Aðspurður hvort Ísland eigi meira sameiginlegt með Bandaríkjunum eftir forsetaskipti en fyrir þau svaraði Guðni: „Ætli það megi ekki orða svo, miðað við að minnsta kosti þær áherslur sem Biden-stjórnin hefur í ýmsum mikilvægum málum.“