Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Vilja að Gæslan setji upp björgunarmiðstöð á Siglufirði

DCIM\100MEDIA\DJI_0512.JPG
 Mynd: Aðsend mynd:Ingvar Erlingsson - RÚV
Bæjarráð Fjallabyggðar hefur falið bæjarstjóra að hefja viðræður við dómsmálaráðherra og forstjóra Landhelgisgæslunnar um stofnun björgunarmiðstöðvar á Siglufirði. Bæjarstjórinn segir hugmyndina ekki setta til höfuðs hugmyndum þingmanns í kjördæminu.

Bæjarstjóra falið að fara í viðræður

Morgunblaðið greindi frá því um helgina ekki væri lengur pláss fyrir öll loftför í flugskýli Landhelgisgæslunnar á Reykjavíkurflugvelli. Í framhaldi varpaði Njáll Trausti Friðbertsson, þingmaður Norðausturkjördæmis, fram þeirri hugmynd að ein af þyrlum gæslunnar yrði staðsett á Akureyri. Nú hefur Fjallabyggð blandað sér í umræðuna en bæjarráð lagði fram bókun um málið í morgun. Elías Pétursson er bæjarstjóri í Fjallabyggð. 

Sjá einnig: Flugskýlið of lítið fyrir flugvélina og þyrlurnar

„Værum ekki að setja þetta fram nema það væri umræðunnar virði"

„Bókunin felur í rauninni í sér tilboð um það að við séum tilbúin að ræða við ráðuneytið og Landhelgisgæsluna um það hvort við sjáum  sameiginlega möguleika á því að Landhelgisgæslan geti sett upp björgunarmiðstöð á Siglufirði," segir Elías. 

Er þetta raunhæft, að miðstöðin geti verið þarna?  

„Við teljum það, Siglufjörður liggur mjög vel að, svona norðanverðu hafinu og norðurlandinu. Við erum með skjólríkan fjörð þar sem það er stutt á haf út, við erum með ónýtta innviði sem væri hægt að nýta. Við eigum flugvöll og flugstöð og ýmislegt sem væri hægt að nýta í þetta. Við værum ekki að setja þetta fram nema það væri umræðunnar virði."

Ekki sett til höfuðs tillögu Njáls

Nú setti þingmaður í kjördæminu fram hugmyndir um að setja upp svona stöð á Akureyri fyrir um viku síðan, er þetta sett til höfuðs þeirri hugmynd? 

„Nei nei nei, alls ekki. Bara ágætt að hann fái hugmyndir og bara mjög gott að við fáum hugmyndir líka."