Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Um einkahúmor og vináttu

Mynd: - / Pixabay

Um einkahúmor og vináttu

18.05.2021 - 09:26

Höfundar

„Hlátur er hljóðið sem heyrist þegar múrinn sem aðskilur okkur frá öðru fólki molnar,“ segir Halldór Armand Ásgeirsson, rithöfundur, í pistli um vináttu og einkahúmor.

Halldór Armand Ásgeirsson skrifar:

Vinur minn sagði mér brandara um daginn sem fékk mig til að tárast af hlátri. Þetta var ekki í fyrsta og ekki í síðasta skipti sem þetta gerist. Ég vona að við eigum öll svona skemmtilega vini. Það var ekkert sérstakt í brandaranum sem þurfti að skilja en í miðju hláturskastinu varð ég einhvern veginn meðvitaður um það að ég vissi ekki hvað nákvæmlega mér fannst svona fyndið. Ég gat ekki svarað því hvað gerði það sem var fyndið fyndið.

Þegar ég var aðeins búinn að jafna mig og þurrkaði tárin úr augunum rann upp fyrir mér að það sem mér fannst svona fyndið var ekki bara brandarinn sjálfur heldur líka einfaldlega sú staðreynd að vinur minn hafði sagt mér hann. Það gerði grínið ennþá fyndnara að vita og þekkja þann yndislega hugarheim sem það hafði skapað. Ég þekki hans húmoríska sjónarhorn á lífið svo vel, ég veit hvaða ofboðslega skemmtilega sýn litar allt sem hann hugsar upp, og það eitt að hugsa um það hvernig hann hugsar um heiminn fær mig til að brosa.

Þetta er að vissu leyti lýsing á því sem við köllum einkahúmor. Hann tengir saman ólíkar sálir á hátt sem þær geta aldrei útskýrt. Við getum ekki útskýrt einkahúmor fyrir öðrum vegna þess að við skiljum hann ekki sjálf, alveg eins og ég upplifði þarna í hláturskastinu. Í áranna rás hefur þessi sami vinur minn óteljandi oft fengið mig til þess að gráta af hlátri og ég hef tekið eftir þessu einkenni: Því meira, hærra og lengur sem ég hlæ því minna skil ég af hverju. Ef ég raunverulega reyni að kafa ofan í það hvað nákvæmlega það er sem mér finnst svona skemmtilegt þá lendi ég á vegg. Þetta er eins og að spyrja af hverju sólarlag er fagurt. Tungumál og rökhugsun bregðast. Það er ekkert sérstakt pönsjlæn, engin írónía, engin trikk eða eitthvað sem þarf að skilja. Hugmyndaflug hans einfaldlega yfirbugar mig. Bestu brandararnir eru þeir sem við skiljum ekki.

Hlátur er hljóðið sem heyrist þegar múrinn sem aðskilur okkur frá öðru fólki molnar. Öll erum við föst inni í okkur sjálfum – það er hið mannlega hlutskipti að við erum dæmd til þess að upplifa okkur sjálf sem miðju alheimsins og getum ekki vitað hvernig er að vera einhver annar. En þegar náinn vinur segir okkur eitthvað sem lætur gleðitár byrja streyma niður vangana, eitthvað óvænt, eitthvað frumlegt, eitthvað sem fær okkur til að sjá heiminn í öðru ljósi, þá er eins og hláturinn sé líkamlegur fögnuður þess að frelsast undan sjálfum sér. Það verður til einhver djúp tenging við hina manneskjuna. Í örskotsstund fattarðu hennar sjónarhorn og færð að sjá, eins og inn um skráargat, hvernig er að vera hún og á sama tíma færðu jafnframt að upplifa hvernig er að vera ekki þú sjálf. Þú hlærð og hlátur þinn fangar mótsögn: Allt í einu skilurðu hvernig er að vera ekki þú. Þú skilur eitthvað sem þú veist ekki hvað er.

Vinur sem annað sjálf eða sama sjálf?

Frábæra umfjöllun um hugmyndasögu vináttunnar er að finna í inngangi Svavars Hrafns Svavarssonar, prófessors í heimspeki, að bókinni Um vináttuna eftir Cicero. Þar kemur meðal annars fram að þýski 18. aldar heimspekingurinn Immanuel Kant hafi fjallað um vináttuna í fyrirlestri þar sem hann tefldi fram tveimur hvötum mannsins, sérhyggju og mannúð. Þessar hvatir takist á í mannssálinni. Sérhyggjan snýr að gerandanum og hefur ekkert siðferðilegt inntak. Mannúðin geymir hins vegar siðferðilegar skyldur mannsins gagnvart náunga sínum. Svavar skrifar: „Ef breytni mannsins byggist á sérhyggju hefur hún ekkert siðferðilegt gildi, en byggist hún á mannúð stuðlar hún ekki að hamingju gerandans. Lausnina finnur Kant í hugmyndinni um vináttu: elski ég vin minn eins og sjálfan mig og elski hann mig eins og sjálfan sig hefur breytni beggja siðferðilegt inntak og stuðlar auk þess að hamingju beggja. Það er þessum skilningi sem Kant skilur vininn sem annað sjálf.“

Já, vinurinn sem annað sjálf. Vinurinn er í raun sá sem elskar þig fyrir þína hönd, ef svo má að orði komast. Þetta eru kannski hártoganir en mér finnst samt þess vert að spyrja: Er vinkonan eða vinurinn annað sjálf eða getur verið að þú og vinkona þín séuð að einhverju leyti sama sjálfið. Með öðrum orðum: Getur verið að vinátta geti náð á slíka dýpt að skilin milli tveggja sjálfa eyðast og verða að því sama. Við erum vinir okkar. Svona upp að vissu marki. Það hafa eflaust allir tekið eftir því að góðir vinir og fólk sem ver miklum tíma saman byrjar að tala eins, nota sömu frasana, tala í sömu hrynjandi og, já, hugsa eins og segja brandara sem hafa sama keiminn og eiga rót sína í sömu heimsmynd.

Hver veit. Hvað það er sem við erum innst inni verður ósagt látið hér. Hins vegar er nokkuð ljóst að manneskjur þekkja sig sjálfar ekkert sérstaklega vel. Við gerum hluti sem við skiljum ekki af hverju við gerum. Við eltum ekki drauma okkar. Við gerum ekki það sem við ætluðum að gera og gerum það sem við héldum að við myndum aldrei gera. Sagt er að yfir innganginum að hofi Apollóns í Delfí hafi staðið hin fræga yfirskrift: „Þekktu sjálfan þig“. Þetta held ég að einhver hafi skrifað sem áttaði sig á því að mannssálin er að stórum hluta í felum, hulin skugga, að við þekkjum okkur sjálf almennt og yfirleitt ekki vel. Og hvaða hlutverki gegna vinir fólks sem skilur ekki sjálft sig? Jú, vinur er sá sem þekkir þig betur en þú gerir sjálf. Vinkona þín sviptir hulunni af því hver þú ert, afhjúpar þig þannig fyrir sjálfum þér.

Hin eilífa enduruppgötvun

Einn af mínum elstu og nánustu vinum stóð nýlega frammi fyrir stóru tækifæri. Hann hafði unnið að þessu lengi, dreymt um þetta tækifæri lengi, og nú skyndilega þegar hann bretti upp ermar og bankaði loks á dyrnar þá brá honum svolítið þegar þær lukust umsvifalaust upp. Það vantaði bara að heimurinn breiddi hreinlega úr rauðum dregli við fætur hans. Hann var í sjöunda himni. Æskudraumurinn var að rætast. En nokkrum dögum síðar fékk skilaboð frá honum: „Dóri, ég er aðeins búinn að vera að hugsa þetta yfir helgina, melta hvort ég eigi að láta slag standa eða hvað. Ég er ekki viss.“ 

Ég skellti upp úr. Þetta var svo dásamlega galið. Hann var búinn að ofhugsa sig inn í myrkviði efans og vissi ekki lengur hvað sneri upp og hvað niður. Núna var hann allt í einu ekki öruggur um hvort hann ætti erindi í þennan nýja heim sem hann hafði dreymt um svo lengi og stóð honum nú galopinn, heim sem hann hafði svo fullkomlega ótvíræða og augljósa hæfileika til að brillera og blómstra í, að enginn sem þekkti hann gat efast um það í eina sekúndu. Nema auðvitað hann sjálfur. Við týnumst í landslagi eigin hugsana. Ég, sem vinur hans, vissi þetta, ég hafði alltaf vitað þetta, ég vissi þetta betur en hann sjálfur. Og mitt hlutverk, sem vinur hans er að, svo að segja, enduruppgötva hann sjálfan, aftur og aftur, fyrir hans hönd, alveg eins og hann gerir fyrir mig. Svo þegar sjálfsefinn byrjar að naga hann – efinn sem nagar og lamar okkur öll – þá er ég til staðar til að fullvissa hann um það hver hann raunverulega er, beina honum aftur á réttan vegarhelming. Við erum hulin skugga. Vinir okkar draga okkur fram í ljósið og gera okkur þannig mögulegt að verða að okkur sjálfum.