Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Þriðja serían af Ófærð líklega sú síðasta

Leikstjóri Ófærðar segir að þriðja þáttaröðin verði líklega sú síðasta. Ólíkt fyrri þáttaröðunum tveimur situr Netflix nú nánast eitt að sýningarréttinum, að minnsta kosti til að byrja með.

Sögu Andra lokað 

Sjónvarpsþættirnir Ófærð hafa notið mikilla vinsælda jafnt innanlands sem utan og þriðja serían er væntanleg í haust. Þar slær í brýnu milli íslensks ásatrúarkölts og mótórhjólagengis. Búast má við blóðugum vestra með eins konar fornyrðislagi en líka uppgjöri hjá aðalpersónunni geðþekku, lögreglumanninum Andra Ólafssyni. „Maður veit aldrei hvað framtíðin ber í skauti sér en allavega er hugsunin að loka sögu Andra á þann hátt að þetta verði einhvers konar þríleikur,“ segir Baltasar Kormákur Baltasarsson, leikstjóri. 

Netflix-streymisveitan kemur sterk inn

Mynd með færslu
 Mynd: rvk studios
Baltasar er við tökur á nýjum spennutrylli, Beast, í Suður-Afríku.

Tökur fóru fram í vetur. Heimsfaraldurinn tafði framleiðsluna lítillega, en setti ekki stórt strik í reikninginn, Baltasar segir að framleiðslukostnaður verði líklega rúmur milljarður, sambærilegur kostnaði við aðra seríuna. Sýningarrétur að seríu tvö var seldur fjölda sjónvarpsrása um allan heim en nú fær streymisveitan Netflix frumsýningarréttinn, auk RÚV og þýsku stöðvarinnar ZDF. Netflix keypti líka upp fyrri seríurnar tvær. „Heimurinn er að breytast, streymisveiturnar hafa verið að koma mjög sterkar inn og gera okkur kleift að gera þetta á því kaliberi sem við þurftum að gera þetta,“ segir Baltasar. 

Fyrstu kitlurnar úr þriðju seríunni verða sýndar á RÚV í vikunni. 

arnhildurh's picture
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV