Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Svalt á landinu áfram í norðlægum áttum

18.05.2021 - 06:56
Innlent · gasmengun · Grindavík · Grænland · Kuldi · Vogar · Veður
Mynd með færslu
 Mynd: Óðinn Svan Óðinsson - RÚV
Hæðin á Grænlandi heldur áfram að stjórna veðrinu á landinu og ekki er útlit fyrir að hún sleppi tangarhaldi sínu á næstu dögum. Svalt verður í veðri áfram en þó glittir í tveggja stafa hitatölur á Suður- og Vesturlandi.

Veðurstofan gerir ráð fyrir norðan- og norðaustan golu eða stinningskalda í dag, fimm til 13 metrum á sekúndu en hægri norðlægri breytilegri átt á morgun, þremur til átta metrum á sekúndu.

Búast má við lítilsháttar éljum á Norðaustur- og Austurlandi, stöku skúrum sunnanlands en að mestu bjart norðvestantil. Hiti verður á bilinu þrjú til 11 stig yfir daginn, mildast suðvestantil.

Spáð er austlægri eða breytilegri átt á höfuðborgarsvæðinu til miðnættis annað kvöld, 3 til 8 metrum á sekúndu. Skýjað verður með köflum í dag og stöku skúrir en á morgun léttir til. Hitinn verður á bilinu 4 til 9 stig að deginum til.

Líklegt er að gas dreifist til vesturs frá Geldingadölum, til dæmis til Grindavíkur en breytileg áttin gæti orðið til þess að gasið nái til norðvesturs, jafnvel til Voga. 

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV