Subbuskapur og reykingastybba á sóttkvíarhóteli

Mynd: RÚV / Skjáskot
Gestir sóttkvíarhótela eru ósáttir við óþrifnað og slæman viðskilnað fyrri gesta á hótelherbergjum. Þeim er sjálfum treyst til að þrífa herbergin.

Fréttastofu barst meðfylgjandi myndskeið í morgun frá gesti eins hótelsins. Þar má sjá að lítið sem ekkert hafði verið þrifið á milli gesta og umgengni ekki upp á marga fiska. Ekki þarf að fjölyrða um mikilvægi þess að þrífa vel umhverfi sitt til að forðast að smit berist á milli fólks.

Út um glugga herbergjanna má einnig sjá reyk frá sígarettum og að sögn gestsins var megn reykingalykt á göngum hótelsins. 

Samkvæmt myndskeiðinu voru gólfin síður en svo hrein og sprittskortur á herberginu því gestum er ekki boðið upp á sótthreinsi né annað til að þrífa hótelherbergið á meðan á dvölinni stendur. Ætlast er til þess að gestir þrífi herbergin sjálfir á meðan á dvölinni stendur. Þeir fá þó rúmföt frá hótelinu.

Nú eru fimm hótel opin á höfuðborgarsvæðinu og hið sjötta er austur á Hallormsstað. Kámugar hurðir, ryk og óþrifnaður blasti við gestinum þegar hann kom inn í herbergið til að taka út sína sóttkví.

Eins og gefur að skilja er gestum skylt að halda kyrru fyrir í herbergjum sínum á meðan á dvöl á sóttkvíarhótelum stendur. Matur er afhendur þangað og aðeins má fara út úr herberginu til að fara í sýnatöku eða til læknis, eða í öðrum neyðartilfellum.

Rauði krossinn hafði ekki fengið umkvartanir um slæma umgengni þegar fréttastofa hafði samband en hyggst kanna málið nánar. 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Reglur sem gestir hótelsins þurfa að lúta.