Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Smekkleysa – þar sem illgresi er jafnt eðalplöntum

Mynd: Kiljan / RÚV

Smekkleysa – þar sem illgresi er jafnt eðalplöntum

18.05.2021 - 11:26

Höfundar

Nýútkomin bók um ólíkindaútgáfuna Smekkleysu er ekki minningarrit. „Þetta er eiginlega bara til að fagna því að við erum til, þrátt fyrir ýmis skakkaföll,“ segir Ólafur Engilbertsson.

Bókin Smekkleysa 33 1/3 kemur út í tilefni af af 33 ára afmæli útgáfunnar, sem hefur allt frá stofnun verið mikill drifkraftur í listsköpun á Íslandi í ýmsum myndum. 

Mynd með færslu

Meðal höfunda bókarinnar er Ólafur Engilbertsson, sem segir að útgáfa bókarinnar sé til þess að fagna því að Smekkleysa sé enn til, en á Óðinsgötu í miðbæ Reykjavíkur er starfrækt verslun undir hennar merkjum.

Þegar flett er í gegnum bókina blasir við fjölbreyttur hópur listamanna. „Þetta hefur náttúrulega verið mjög skrautleg leið, þetta er ekki venjulegt útgáfufyrirtæki. Ef þetta væri garður, þetta væri ekki lystigarður heldur kannski meira að illgresið færi jafnt eins og eðalplöntur. Hins vegar er þetta búið að vera svona frá upphafi eiginlega, einyrkjar sem eru svona sérsinna margir. Þetta byrjaði náttúrulega með því að Sykurmolarnir fóru á flug og þá gat Smekkleysa farið á flug. En Smekkleysa varð til á undan.“

Ólafur var í Medúsuhópnum, hópi súrrealista úr Breiðholti, sem stóð fyrir ýmsum uppákomum, gjörningum og útgáfu snemma á níunda áratugnum. „Við vorum með hljómsveit og rákum gallerí líka. Flestir í Medúsu komu síðan að Smekkleysu og Úlfhildur Dagsdóttir talar um það í grein sem hún skrifar í bókina hvernig súrrealískir textar Medúsu kristallast í Sykurmolatextum síðar.“

Innan Smekkleysu takast á sterkar andstæður, líkt og í súrrealismanum, segir Ólafur. „Þetta eru andstæður, andstæðir pólar og það er viðtekinn smekkur og það eru einhverjir sem eru kannski að reyna að brjóta það upp hvað er viðtekinn smekkur.“

Bókin er ríkulega myndskreytt og hönnuð af Ámunda Sigurðssyni. Rætt var við Ólaf Engilbertsson í Kiljunni á RÚV.

Tengdar fréttir

Tónlist

Gamalt og illa lyktandi sokkapar til sölu