Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Mótmæli og fagnaðaróskir við komu Blinken

Mynd: Guðmundur Bergkvist / RÚV
Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, kom í Hörpu skömmu fyrir klukkan tíu í morgun. Þar ræðir hann við íslenska ráðamenn í dag, þeirra fyrstan Guðlaug Þór Þórðarson utanríkisráðherra sem tók á móti honum með góðum kveðjum. Utandyra var fólk sem hélt á fánum og mótmælaspjöldum þar sem krafist var aðgerða til að stöðva árásir ísraelskra stjórnvalda á Palestínumenn.
Mynd: Guðmundur Bergkvist / RÚV

Blinken og Guðlaugur Þór hittust á jarðhæð Hörpu áður en þeir héldu upp í Björtuloft á efstu hæð þar sem fundur þeirra fór fram. Guðlaugur sagði ánægjulegt að Blinken væri kominn og Blinken lýsti ánægju með að vera kominn. Fréttamaður spurði Blinken tíðinda af átökum fyrir botni Miðjarðarhafs en hann sagði tíma til að ræða það síðar og vísaði þar væntanlega til blaðamannafundar að loknum viðræðum hans og Guðlaugs Þórs.

Fyrir utan hafði nokkur hópur safnast saman við komu Blinkens. Á spjöldum mátti lesa kröfur um að komið yrði á friði í Palestínu, blóðbað þar stöðvað og að hernám Ísraela þar stöðvað.

Mynd: Guðmundur Bergkvist / RÚV