
MDE segir Ísland ekki hafa brotið mannréttindasáttmála
Drengurinn fæddist árið 2013 í Kaliforníu í Bandaríkjunum og konurnar voru skráðir foreldrar hans þar í landi. Þau fluttu hingað til lands ári síðar og Þjóðskrá hafnaði því að skrá þær sem foreldra hans og skrá drenginn sem íslenskan ríkisborgara þar sem líffræðileg móðir hans væri bandarísk. Síðan sneri Alþingi þeirri ákvörðun við og samþykkti ríkisborgararétt hans.
Konurnar fóru með mál sitt fyrir dómstóla árið 2016 og var kröfu þeirra hafnað bæði í héraðsdómi og Hæstarétti. Drengurinn var síðan skráður sem fósturbarn kvennanna.
Í dómi Hæstaréttar sem féll árið 2017 kemur fram að staðgöngumæðrun sé óheimil hér á landi. Hún grafi undan þeirri grundvallarreglu að móðerni sé óframseljanlegt og að barn eigi ávallt rétt á að vita hverjir kynforeldrar þess séu. Foreldratengsl sem komið sé á með þeim hætti séu því ósamrýmanleg íslenskum lögum.
Ákvörðun um að viðurkenna ekki erlenda dómsúrlausn, þar sem foreldratengslum er komið á með staðgöngumæðrun, hafi sama tilgang og bann íslenskra laga við staðgöngumæðrun.
Í úrskurði Mannréttindadómstólsins segir að íslenska ríkið hafi ekki brotið gegn ákvæðum mannréttindasáttmála Evrópu. Þrátt fyrir að engin líffræðileg tengsl væru á milli drengsins og kvennanna, þá hefðu þau verið tengd fjölskylduböndum. Engu að síður hefði höfnun Hæstaréttar á að konurnar gætu verið skráðar foreldrar drengsins verið réttmæt og hefði átt sér stoð í íslenskum lögum.