Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Ekkert lát á loftárásum Ísraela á Gasa

epa09207800 Smoke and flames rise following an Israeli air strike on Gaza City, 18 May 2021. Tensions have escalated in the region, following days of violent confrontations between Israeli security forces and Palestinians in Jerusalem, leading to the heaviest offensive in years.  EPA-EFE/MOHAMMED SABER
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Ekkert lát er á loftárásum Ísraela á Gasa þrátt fyrir ákall Sameinuðu þjóðanna og alþjóðasamfélagsins um vopnahlé. Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna heldur neyðarfund vegna stöðunnar í Ísrael og Palestínu í dag, þann fjórða á rúmri viku. Joe Biden, Bandaríkjaforseti, hvetur til vopnahlés, en fulltrúi Bandaríkjanna í Öryggisráðinu hefur í þrígang beitt neitunarvaldi til að stöðva sameiginlega ályktun ráðsins, þar sem ofbeldið er fordæmt og hvatt til vopnahlés.

Ísraelar hafa drepið minnst 212 Palestínumenn í loftárásum á Gasa, þar af ekki færri en 61 barn. Um 1.500 eru særð. Talsmenn Ísraelshers fullyrða að árásunum sé beint að hernaðarlegum skotmörkum tengdum Hamas-samtökunum. Fjölmörg dæmi eru þó um annað.

42 fórust þegar sprengjum var varpað á fjölfarna götu og íbúðabyggð í Gasaborg á sunnudag, blóðugasta degi árásanna til þessa, þar af tíu börn. Átta börn úr sömu fjölskyldunni fórust þegar Ísraelar vörpuðu sprengju á flóttamannabúðir norður af Gasaborg á laugardag.

Þann dag jafnaði Ísraelsher líka ritstjórnarskrifstofur Al Jazeera og AP-fréttastofunnar í Gasa við jörðu. Í gærkvöld varpaði Ísraelsher sprengjum á höfuðstöðvar katarska Rauða hálfmánans á Gaza og drap þar tvo menn og særði tíu. Eina rannsóknarstofan á Gasa, þar sem hægt var að greina COVID-19 sýni, var eyðilögð í sömu árás. Allt er þetta í bága við alþjóðalög.

Vilja rannsókn á mögulegum stríðsglæpum Ísraela

Bæði Amnesty International og Mannréttindavaktin leiða að því líkur að framganga Ísraelsmanna síðustu vikuna feli í sér stríðsglæpi. Amnesty og samtökin Fréttamenn án landamæra hafa beint því til Alþjóða sakamáladómstólsins í Haag, að saksóknari hans rannsaki árásirnar á ritstjórnarskrifstofur Al Jazeera og AP með þetta í huga.

Palestínumenn hafa drepið tíu í Ísrael, mest almenna borgara

Palestínumenn hafa skotið á fjórða þúsund flugskeyta að Ísrael, sem flest hafa verið skotin niður af loftvarnakerfi Ísraela eða lent utan byggðar. Það á þó ekki við um þau öll, því Palestínumenn hafa drepið tíu manns í Ísrael. Öll nema eitt eru almennir borgarar og tvö þeirra á barnsaldri. 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV