Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Blinken fundar með íslenskum ráðamönnum í dag

epa09177598 Britain's Prime Minister Boris Johnson (unseen) greets US Secretary of State Antony Blinken at 10 Downing Street in London, Britain 04 May 2021. Foreign Ministers of the Group of Seven (G7), the world's largest industrial economies, are meeting in London on 04 and 05 May.  EPA-EFE/NEIL HALL / POOL
 Mynd: epa
Antony Blinken utanríkisráðherra Bandaríkjanna fundar með Guðlaugi Þór Þórðarsyni utanríkisráðherra, Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra og Guðna Th. Jóhannessyni forseta í dag.

Blinken kom til Íslands frá Danmörku í gærkvöld, en megintilgangur heimsóknar hans er þátttaka á fundi Norðurskautsráðsins á fimmtudag.

Jafnframt ætlar hann að funda sérstaklega með Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, sem væntanlegur er til landsins á morgun. Það verður fyrsti fundur þeirra augliti til auglitis. 

Síðdegis í dag skoða þeir Guðlaugur Þór og Blinken Hellisheiðarvirkjun og Carbfix-verkefnið. Félagið Ísland-Palestína hefur boðað til mótmæla í dag vegna stuðnings Bandaríkjanna við Ísrael í Palestínumálinu.

Forsætisráðherra sagði á þingi í gær að hún ætlaði að ræða ástandið fyrir botni Miðjarðarhafs við Blinken og Lavrov. 

Ríkislögreglustjóri hefur sett á tímabundið bann við flugi dróna vegna ráðherrafundar Norðurskautsráðsins. Bannið gildir til miðnættis á fimmtudagskvöld.

Einnig má búast við smávægilegum umferðartöfum miðsvæðis í Reykjavík meðan á ráðherrafundinum stendur, eða frá þriðjudegi til fimmtudags. Engum götum verður þó lokað.