Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Átök á Gaza og norðurslóðamál í brennidepli

Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist - RÚV
Átökin fyrir botni Miðjarðarhafs og staða norðurslóðamála þegar Rússar taka við formennsku í Norðurskautsráðinu af Íslendingum bar hæst á sameiginlegum blaðamannafundi Antonys Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, og Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, utanríkis- og þróunarmálaráðherra.

Blinken talaði um tilraunir Bandaríkjanna til að koma á friði fyrir botni Miðjarðarhafs. Hann sagðist hafa lagt áherslu á það í viðræðum við utanríkisráðherra ríkja á svæðinu að finna leið til að stöðva ofbeldið. Hann vísaði jafnframt til þess að Joe Biden Bandaríkjaforseti hefði rætt við Benjamin Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels, og hvatt til friðar en viðurkennt rétt Ísraela til að verjast flugskeytaárásum á almenna borgara. 

Bandaríkin telja að besta leiðin til framtíðar fyrir Ísrael og Palestínu sé tveggja ríkja lausnin, sagði Blinken. Það tryggi best framtíð Ísraels sem lýðræðisríkis og að Palestínumenn fái það ríki sem þeir eiga rétt á. Hann sagði að Bandaríkin væru því andvíg öllum aðgerðum sem draga úr líkum á að tveggja ríkja lausnin nái fram að ganga.

Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist - RUV
Anthony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna.

Guðlaugur Þór sagði að staðan fyrir botni Miðjarðarhafs hefði verið rædd á fundinum þó svo það hefði ekki verið meðal umræðuefna í upphafi. Hann sagði gríðarlega mikilvægt að koma á friði.

Blaðamaður Reuters spurði hvernig það færi saman að Bandaríkin boðuðu mikilvægi góðs samstarfs við önnur ríki en stæðu á sama tíma gegn því að öryggisráð Sameinuðu þjóðanna beitti sér til að stöðva ofbeldið fyrir botni Miðjarðarhafs. Bandaríkin hafa löngum staðið gegn því að öryggisráðið beitti sér gegn Ísrael. Blinken sagði mikilvægt að hafa í huga að Bandaríkjamenn ynnu af krafti en hljóðlátlega að því að finna lausn í samtölum við ríki í heimshlutanum. Hann neitaði því að Bandaríkin kæmu í veg fyrir að öryggisráðið gæti beitt sér, þau reyndu einfaldlega að finna bestu leiðina.

Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist - RUV
Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarmálaráðherra.

Hrósaði frammistöðu Íslendinga í Norðurskautsráði

Blinken er hingað kominn í tengslum við fund Norðurskautsráðsins þar sem Rússar taka við formennsku af Íslendingum. Auk funda með íslenskum ráðamönnum ræðir hann við Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússa, sem sagði í gær að norðurskautssvæðið væri rússneskt og að vestræn ríki ættu ekki að gera tilkall til þess.

Ísland hefur náð miklum árangri í formennskutíð sinni í Norðurskautsráðinu og skilar ráðinu af sér sterkara en það tók við því, sagði Blinken. Hann ræddi um stefnu og nýsköpun Íslands í loftslagsmálum og kvað hana vera öðrum til fyrirmyndar.

Blinken sagði að uppi væru hugmyndir um að forsetar Bandaríkjanna og Rússlands hittust á fundi og að það gæti gerst á næstu vikum. Blinken sagði gott að bæta samskipti ríkjanna á mörgum sviðum. Hins vegar myndu Bandaríkjamenn bregðast við ef Rússar gerðu eitthvað sem ógnaði hagsmunum eða öryggi Bandaríkjanna eða bandamanna þeirra. „Ég held að það sé mikilvægt að geta rætt þessi mál augliti til auglitis,“ sagði Blinken.

Hvað varðar norðurskautsmál sagði Blinken að margvíslegt samstarf hefði átt sér stað á norðurslóðum síðustu ár og vonaðist til að svo yrði áfram. Hann sagði Rússa þó hafa haldið fram ólöglegum kröfum í hafréttarmálum sem yrði að bregðast við. Því hefðu Bandaríkjamenn hvatt Rússa til að beina kröfum sínum til þar til bærs samstarfs ríkja um hafréttarmál. Blinken lýsti áhyggjum af auknum hernaðarumsvifum Rússa á norðurskautssvæðinu. Blinken lýsti þó vonum um að afraksturinn af störfum Íslands yrði notaður til að tryggja gott samstarf.

Guðlaugur Þór sagði alþjóðalög gilda um norðurslóðir, þau væru ekki einskis manns land. Hann sagði mikilvægt að forgangsraða því að lítið yrði um átök og deilur um norðurslóðir. Einnig yrði að tryggja sjálfbærni á svæðinu. Um þetta hefði verið góð samstaða til þessa. Hann fagnaði því að samrómur hefði verið með sér og Blinken á fundi þeirra um mikilvægi þess að Bandaríkin litu á norðurskautsmál sem lykilatriði.