Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Allt tiltækt slökkvilið á Akranesi berst við sinueld

18.05.2021 - 22:33
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Elsa María
Allt tiltækt lið slökkviliðsins á Akranesi berst nú við sinueld nærri Kúludalsá, rétt austan við munna Hvalfjarðarganga. Jens Heiðar Ragnarsson slökkviliðsstjóri segir í samtali við fréttastofu að um tuttugu manns séu að störfum á vettvangi.

„Þetta er þó nokkuð umfangsmikið, sennilega tveir hektarar allavega á að giska. Við erum með allt okkar lið og búnað á vettvangi, en sem betur fer er ekki mjög hvasst á svæðinu og það bjargar miklu,“ segir Jens.

Tilkynning barst um eldinn upp úr klukkan níu. Jens telur að slökkviliðið sé að ná tökum á eldinum og þurfi ekki að kalla á liðsauka frá Reykjavík, en sinueldar séu þó alltaf ófyrirsjáanlegir. 

„Ef hvessir getum við lent í basli. En eins og staðan er núna erum við að ráða við þetta,“ segir Jens. Hann segir að barist sé við eldinn bæði með vatni og svokölluðum klöppum og reiknar með að hafa lið á vettvangi fram eftir kvöldi og jafnvel nóttu.

Hættustig er í gildi vegna hættu á gróðureldum á Suður- og Vesturlandi, en fjölmargir gróðureldar hafa kviknað síðustu daga.

Mynd með færslu
Reykur frá eldinum sést frá Reykjavík. Mynd: Aðsend