Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

171 land er nú hááhættusvæði

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
171 land er á nýjum lista heilbrigðisráðuneytisins yfir svæði og lönd sem talin eru hááhættusvæði vegna COVID-19. Löndunum á listanum hefur fjölgað um 33 frá síðasta lista. Allir sem koma frá þessum svæðum þurfa að fara í sóttkví í sóttvarnahúsi við komuna til landsins. Þó er hægt að sækja um undanþágu frá því. 

Listinn tekur gildi í dag og hann er tvískiptur. Annars  vegar eru 158 lönd þar sem 14 daga nýgengi á hverja 100.000 íbúa er allt að 699 eða hlutfall jákvæðra sýna 5% eða hærra. Meðal þessara landa eru Bandaríkin, Spánn, Danmörk, Pólland og Þýskaland auk fjölmargra landa í Afríku, Asíu og Suður-Ameríku.

Fólk sem kemur frá þessum löndum getur sótt um undanþágu frá sóttkví í sóttvarnahúsi að minnsta kosti tveimur sólarhringum fyrir komuna til landsins og þarf þá að sýna fram á að það geti verið í sóttkví á eigin vegum.

Hins vegar eru 13 lönd á listanum þar sem nýgengi COVID-19 er 700 eða meira. Meðal þeirra eru Frakkland, Holland, Króatía og Svíþjóð. Fólk sem kemur frá þessum löndum þarf skilyrðislaust að fara í sóttkví í sóttvarnahúsi.

Stjórnvöld endurskoða reglulega lista yfir hááhættusvæði. Listi sem þessi var síðast gefinn út í byrjun mánaðarins og þá voru á honum 138 lönd.

Fréttin hefur verið leiðrétt, en á lista sem heilbrigðisráðuneytið gaf út yfir viðkomandi lönd voru nokkur tvítalin. Ráðuneytið hefur nú leiðrétt það.

annalth's picture
Anna Lilja Þórisdóttir