Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Vonar að almenningur nýti sér ferðagjöfina í sumar

17.05.2021 - 12:36
Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson
Meirihluti atvinnuveganefndar Alþingis leggur til að gildistími nýrrar ferðagjafar stjórnvalda verði lengdur um einn mánuð til að mæta óskum ferðaþjónustufyrirtækja. Flutningsmaður tillögunnar vonar að gjöfin ýti undir ferðalög innanlands í sumar líkt og í fyrra.

 

Allir átján ára og eldri með lögheimili hér á landi fá fimm þúsund króna ferðagjöf frá stjórnvöldum í sumar líkt og í fyrra, samkvæmt frumvarpi ferðamálaráðherra. Önnur umræða um frumvarpið er á dagskrá Alþingis í dag.

Ferðagjöfin á að gilda frá 1. júní til 31. ágúst samkvæmt frumvarpinu. Meirihluti atvinnuveganefndar leggur hins vegar til að gildistíminn verði lengdur um einn mánuði, eða til loka septembermánaðar, til að mæta óskum ferðaþjónustufyrirtækja.

„Samtök ferðaþjónustunnar fóru meðal annars fram á þetta og okkur fannst bara eðlilegt að verða við þeirri beiðni. Núna þegar við erum að reyna að koma þessu öllu af stað aftur, atvinnugreininni,“ segir Njáll Trausti Friðbertsson þingmaður Sjálfstæðisflokks og flutningsmaður tillögunnar.

Njáll vonar að almenningur nýti gjöfina til ferðalaga í sumar en segir að ekki hafi verið hægt að lengja gildistímann enn frekar.

„Ríkisstyrkjareglurnar leyfa ekki að þetta gildi lengur en til 30. september. Við verðum að virða það sem kemur frá ESA, Eftirlitsstofnun EFTA. Varðandi ferðagjöf eitt, sem rennur út um mánaðamótin, þá virðist vera að þeir sem hafa ætlað sér að nýta hana séu búnir að gera það vegna þess að það hefur verið mjög lítil notkun allra síðustu mánuði á henni. Og til þess að nýta fjármagnið betur sem var í ferðagjöf eitt þá er verið að færa fjármuni inn í nýja ferðagjöf og vonandi að almenningur taki við sér og nýti sér fjármagnið,“ segir Njáll Trausti.