Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Vilja beina hraunflæðinu í Meradalabaðkerið

17.05.2021 - 22:58
Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson
Varnargarðarnir ofan Nátthaga verða líklega tvöfalt hærri en til stóð í upphafi. Það á eftir að koma í ljós hversu mikils gröfur og jarðýtur mega sín gagnvart náttúruöflunum, en verkfræðingur telur þetta tilraunarinnar virði.

Vilja breyta hraunrennslinu

Stórvirkar vinnuvélar hamast við að reisa tvær stíflur við hraunjaðarinn í nafnlausadalnum svokallaða, syðst í Merardölum. Markmiðið er að koma í veg fyrir að hluti Suðurstrandarvegar fari undir hraun og ljósleiðari eyðileggist. 

„Við erum að reyna að tefja þetta eins lengi og við getum og beina þessu í staðinn yfir í Meradali og þar er alveg risa baðkar, 35 metrar upp í haftið sem fer síðan til austurs,“ útskýrir Hörn Hrafnsdóttir, umhverfis- og byggingaverkfræðingur hjá Verkís. Meradalir geta tekið lengi við. Renni hraunið þangað ógnar það engum mannvirkjum, og þó það fari niður í næsta dal þá ógnar það engu þar heldur, það er nóg landflæmi. Síðustu daga hefur hraun runnið í Meradali, Geldingadali og nafnlausa dalinn, syðst í Meradölum, en óljóst er hvernig rennslið skiptist nákvæmlega. 

Átta metra garðar

Varnargarðarnir höfðu verið lengi á teikniborðinu hjá Almannavörnum en hraunið var ekkert að flýta sér og því enginn asi, svo ruddist jaðarinn allt í einu fram á örfáum dögum. Í fyrstu stóð til að garðarnir yrðu fjögurra metra háir en nú er útlit fyrir að þeir verði hækkaðir í átta metra enda hraunmolarnir farnir að rúlla yfir neyðarruðninginn vestanmegin. „Þetta er allt að gerast, eldfjallið er stanslaust að fæða hraun inn í kerfið og svo er þetta spurning um hvar það finnur veikleika til að gossast fram næst, byrjar það að halda áfram hér á morgun eða eftir tíu daga, það er erfitt að segja til um það en bara um að gera að fara að hækka þetta sem fyrst þannig að við kaupum okkur aðeins betri tíma,“ segir Hörn. Eftir að garðarnir hafa verið hækkaðir verður metið hvort það sé þörf á því að hækka þá meira og hvort það sé yfirleitt hægt. 

Það gýs af miklum krafti, gígurinn hefur bætt ansi mikið í framleiðnina síðustu daga og afraksturinn er stór bunga sem rís upp úr hraunbreiðunni. Hörn segist hafa það á tilfinningunni að náttúruöflin séu með varnargarðateyminu í liði. „Hvort það sé þeirra að kenna okkur hvaða mörk við þurfum að setja okkur eða hvort við náum að stoppa hraunið í lengri tíma, það verður tíminn að leiða í ljós.“ 

„Setti tönnina aðeins í hraunið“

Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson
Gera atlögu að hrauninu.

Hraunið er óútreiknanlegt og alltaf hætta á því að hraunið hlaupi fram, neyðarruðningurinn sem var settur upp fyrst á að verja þá sem eru að vinna á svæðinu. „Ýtumaðurinn setti áðan tönnina aðeins í hraunið og það varnúna  alveg grjótstöðugt en maður veit samt aldrei hvenær það fer að hreyfa sig og það eru svo mörg ferli í gangi, stundum skríður það fram eins og belti á beltagröfum, stundum ýtir að sér áfram eins og jarðýta og svo geta verið þessi undanskot þar sem það kemur fljótandi hraun undan.“ Vinnuvélarnar standa því andspænis andstæðingi sem getur brugðið sér í allra kvikinda líki. Hörn segir að það hafi orðið nokkur undanskot síðustu daga, þau hafi átt þátt í því hversu hratt hraunið hefur gengið fram síðustu daga.  

Mikill skaði ef hraun fer yfir veginn

Hörn segir ákvörðunar stjórnvalda um hvort garðarnir verði hækkaðir að vænta í fyrramálið, gert er ráð fyrir að framkvæmdirnar kosti um tuttugu milljónir sem ríkið greiðir að mestu. „Í stóra samhenginu eru þetta ekki miklir peningar miðað við að verja þessi mannvirki sem þarna gætu verið í stórhættu,“ segir Fannar Jónasson, bæjarstjóri í Grindavík. Áður en það fór að gjósa, og verið var að rýna í ýmsar sviðsmyndir, töldu Almannavarnir ekki að ráðist yrði í miklar aðgerðir til að verja Suðurstrandarveg. Það væri tiltölulega einfalt að laga hann. Fannar er ósammála því. „Þetta er ein af þremur akstursleiðum úr og frá Grindavík, þarna eru þungaflutningar og ferðamenn á ferðinni og þetta er tenging Suðurnesjanna við Suðurlandið, það er mikið í húfi að halda þessum vegi opnum og svo er hraun sem rennur þarna ekkert lamb að leika sér við og tekur tíma að kólna.“

Sjá einnig: Vilja hafa jarðýturnar klárar ef verja þarf byggð

Fannar telur að nú skipti mestu að bregðast hratt við og láta verkin tala.  Grindavíkurbær þurfi hugsanlega að leggja út fyrir einhverjum kostnaði en það verði gert upp síðar. „Það er Almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra sem hefur með þetta mál að gera og reiknað með því að ríkið greiði kostnaðinn en fram að því leysum við málin hér í Grindavíkurbæ og borgum það sem til þarf hverju sinni, svo verður þetta gert upp síðar, ég hef engar áhyggjur af því.“ 

Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson
Fannar Jónasson.

Reynsla sem hægt er að byggja á, gjósi annars staðar

Það er óljóst hvernig fer í þessari atlögu vinnuvélanna að hraunjaðrinum en Hörn segir að sama hvernig fari sé tilraunin mikilvæg. „Nú segja okkar færustu vísindamenn að Reykjanesið sé vaknað og þá vitum við ekkert hvar kemur upp næst gos og hraun og rennsli, þá er um að gera að safna aðeins í sarpinn og sjá hvað við getum gert mikið,“ segir Hörn. Það liggi þá betur fyrir hversu mikið sé hægt að vernda, ógni hraunrennsli byggð eða mikilvægum innviðum. 

Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot
arnhildurh's picture
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV