Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Vegrún merkir ferðamannastaði og náttúruperlur

Mynd: Elsa María Guðlaugs Drífudót / RÚV
Upplýsingaskilti þurfa að geta staðið af sér vinda og fönn og falla vel að umhverfi sínu. Nýtt samræmt skiltakerfi fyrir ferðamannastaði og náttúruperlur hefur verið tekið í notkun.

Vegrún er heitið á samræmdu merkingakerfi fyrir ferðamannastaði og friðlýst svæði. Fyrstu skiltin sem byggjast á kerfinu má nú sjá við Djúpalónssand á Snæfellsnesi. Þetta er liður í stefnu hins opinbera um uppbyggingu innviða. Umhverfis- og auðlindaráðuneytið og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið unnu að verkefninu með Miðstöð hönnunar og arkitektúrs. 

„Þetta er verkefni sem byggir á því að efla hönnun og umhverfisvæna framkvæmd á þeim innviðum sem við erum að byggja til að vernda náttúruna þannig að þeir passi sem best að landslagi og staðháttum á hverjum stað,“ segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfis- og auðlindaráðherra. 

Þurfa að geta staðið af sér veður og vind

Farið var vandlega ofan í kjölinn á hverri einustu skrúfu í hönnunarferlinu. Nýtt letur var hannað, Stika sans, og notaður innlendur efniviður og íslensk framleiðsla. Hörður Lárusson er grafískur hönnuður og hluti af Kolofon&co, sem er teymið á bak við hönnunina. 

„Ísland er alveg ótrúlega fjölbreytt land. Við erum stödd hér niðri í fjöru þar sem veðrið er í raun ekkert svo slæmt en svo ertu kannski með samsvarandi skilti sem fara upp á hálendi og þau þurfa að geta staðið af sér veður þar. Þau þurfa að geta staðið af sér að fara á kaf í fönn, yfir veturinn, þannig að það er þessi gífurlega breidd. Og það sem er áhugaverð nálgun fyrir okkur sem hönnuði er að við erum ekki að hanna endanleg skilti heldur erum við að hanna kerfi sem aðrir geta notað, og allir geta notað.“ 

Vegrúnu má nálgast á vefsíðunni góðarleiðir.is og nýtist öllum sem standa í uppbyggingu á ferðamannastöðum og náttúruperlum. Þar má jafnframt finna leiðbeiningar um gerð ýmiss konar náttúrustíga.