Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Unnið í takt við samkomulag um flugvallarmál

Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot - RÚV
Vinna sem tengist Reykjavíkurflugvelli og hugsanlegum öðrum flugvelli í hans stað gengur sinn eðlilega gang, sagði Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnaráðherra, á Alþingi í dag. Hann svaraði þar fyrirspurn Njáls Trausta Friðbertssonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, um hvernig staðið hefði verið við samkomulag Reykjavíkurborgar og stjórnvalda frá því í nóvember 2019 um að hrinda í framkvæmd verkefnum og nauðsynlegum rannsóknum vegna flugvallarmála á suðvesturhorni landsins.

Samkomulagið fól í sér að ríki og borg myndu hefja samstarf um rannsóknir á möguleikum þess að byggja nýjan flugvöll í Hvassahrauni sem tæki við af Reykjavíkurflugvelli. Þeirra á meðal voru nefndar veðurrannsóknir, flugprófanir, rannsóknir á vatnsvernd og greining á samgöngum til og frá flugvelli auk áhrifa af tilfærslu innanlandsflugs.

Njáll Trausti spurði Sigurð Inga hvernig vinnan gengi og hvaða áhrif eldsumbrot á Reykjanesi hefðu á framhaldið.

Sigurður Ingi sagðist eiga von á hættumati vegna flugvallarins frá Veðurstofu Íslands, vonandi fyrir lok þessa árs, en benti á að talsvert væri að gera hjá henni nú um stundir. Sigurður Ingi vísaði einnig til eldsumbrota sem gætu staðið lengi miðað við söguna: „Þannig að það í mínum huga gæti verið óskynsamlegt að fara í svona framkvæmdir rétt á meðan slík hrina gengur yfir.“ Hann sagði að þess vegna hefði verið lögð áhersla á að lagfæra og endurbyggja aðstöðuna á Reykjavíkurflugvelli og kvaðst hafa þær upplýsingar að líklegt væri að framkvæmdaleyfi fengist til þess. Af því kynnu að berast fréttir fljótlega.

Þjóðarskömm

Bæði Njáll Trausti og Sigurður Ingi lýstu óánægju með aðstöðuna á Reykjavíkurflugvelli sem Njáll Trausti sagði að væri þjóðarskömm og Sigurður Ingi kvað engan veginn boðlega.