
Rótin hlaut Mannréttindaverðlaun Reykjavíkurborgar
Markmið Rótarinnar er að stofna til umræðu um konur, fíkn, áföll, ofbeldi og geðheilbrigði og huga að sérstökum meðferðarúrræðum fyrir konur.
Í umsögn valnefndar kemur fram að Rótin hafi haft mikil áhrif á umræðuna með uppbyggilegri og rökstuddri gagnrýni, ekki síst á staðnað meðferðarkerfi. Félagið hafi hvatt hið opinbera til nútímalegrar stefnumótunar og aukins gæðaeftirlits og skrifað fjölda erinda til stjórnvalda, eftirlitsaðila og annarra sem koma að þessum málaflokki.
Kristín I. Pálsdóttir, talskona og framkvæmdastjóri Rótarinnar, tók við verðlaununum í dag. Hún sagði mikilvægt að viðurkenna mannréttindi þessa jaðarsetta hóps.
Fulltrúum Hinsegin félagsmiðstöðvar, Samtakanna ´78 og Tjarnarinnar voru svo veitt hvatningarverðlaun mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs. Hvatningarverðlaunin eru veitt fyrir þróunar- og nýbreytnistarf einstaklinga, borgarstofnana og fyrirtækja á sviði mannréttinda- og lýðræðismála fyrir verkefni sem þykja stuðla að auknu jafnræði, vinna gegn margþættri mismunun og leggja áherslu á jafna stöðu allra kynja.