Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Risastór streymisveita að verða til

17.05.2021 - 12:38
epa08448549 A billboard for the new streaming service HBO Max in New York, New York, USA, 27 May 2020. The new streaming service, which is a subsidiary of AT&T's WarnerMedia, launched today in a reported effort to compete with Netflix.  EPA-EFE/JUSTIN LANE
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Bandaríski fjarskiptarisinn AT&T tilkynnti í dag að fjölmiðlafyrirtækin WarnerMedia og Discovery væru að sameinast. Þar með yrði til streymisveita sem gæti keppt við Netflix og Disney+.

Í sameiginlegri yfirlýsingu fyrirtækjanna segir að blanda eigi saman skemmtiefni, fréttum og íþróttaumfjöllin WarnerMedia og fjölbreyttu fræðslu-, íþrótta- og skemmtiefni Discovery rásanna og skapa þannig fyrirtæki sem höfða eigi til alls heimsins.

Þegar samningar verða frágengnir fær AT&T 43 milljarða dollara. Hluthafar í fyrirtækinu eignast 71 prósent í hinu nýja fjölmiðlafyrirtæki og hluthafar Discovery 29 prósent. 

AT&T keypti fjölmiðlafyrirtækið Time Warner árið 2018 fyrir áttatíu milljarða dollara og breytti nafni þess í WarnerMedia. Fyrirtækið á HBO, Warner Bros. myndverin og sjónvarpsrásir, þar á meðal CNN. Sjónvarpsefni frá Discovery er sýnt í 220 löndum, að því er kemur fram á vef fyrirtækisins.